Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sæmundur fróði fluttur á brott

09.12.2015 - 17:06
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Smábáturinn Sæmundur fróði, sem sökk við suðurbugtina við gömlu höfnina í Reykjavík í óveðrinu á mánudag, var hífður á þurrt síðdegis og fluttur á brott á flutningabíl. Lagt verður mat á ástand bátsins í framhaldinu en stórt gat er á stefni hans.

Lögreglan lokaði suðurbugtinni á mánudagskvöld vegna veðurs en þar voru tólf smábátar. Tveir þeirra sukku og einn losnaði frá bryggjunni. 

Sæmundur fróði er í eigu líf- og umhverfisvísindastofnunar Háskóla Íslands.  „Það virðist vera að hann hafi slegist utan í flotbryggjuna og það er þarna hluti af bryggjunni sem hefur losnað frá. Og það kemur stórt gat framan á stefnið á bátnum og hann fer niður vegna þess,“ segir Svandís Helga Halldórsdóttir, verkefnisstjóri hjá líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands.

Hún segir að nauðsynlegt sé að taka upp vél bátsins og hreinsa hana, auk þess sem rafkerfið sé ónýtt og stórt gat á stefninu. Því sé ljóst að tjónið er mikið. Báturinn hefur meðal annars verið notaður til að fara í ferðir með hópa nemenda, þótt hann hafi aðallega verið notaður í rannsóknarskyni. „Báturinn hefur verið notaður við rannsóknir á til að mynda grjótkrabba, kræklingarannsóknir og þess háttar. Hann dettur náttúrlega úr umferð hjá okkur núna og hvað verður um hann er erfitt fyrir okkur að sjá fyrir núna. Við eigum eftir að meta hann en hann er ansi mikið skemmdur. Þannig að þetta mun hafa mikil áhrif hjá okkur.“