Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Sækist ekki eftir því að verða ráðherra

28.01.2016 - 16:40
Mynd með færslu
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segist bæði þakklát og auðmjúk í ljósi þess mikla og vaxandi trausts, sem Píratar virðast njóta meðal landsmanna. Mynd: ruv
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segist aðeins hafa áhuga á því að bjóða sig fram á næsta kjörtímabili ef kjörtímabilið verði stutt. „Ég ætla að vinna í því að afla því fylgis en ef það tekst ekki þá náttúrulega fer bara sem fer en ég vil bara ítreka það að ég er ekki að sækjast eftir því að verða forsætisráðherra,“ segir Birgitta.

Fylgi Pírata heldur áfram að aukast og er nú í fyrsta sinn komið yfir 40% samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar tvö. Píratar mælast með nær 42% fylgi. Birgitta sagði í Síðdegisútvarpinu á Rás2 í dag að það sé ekkert í hendi. „Við lítum bara á þetta sem fugla í skógi og gerum okkur engar væntingar þannig sko. Við bara fögnum því að fá tækifæri til þess að tala um hvað okkur finnst mikilvægt að gera“, segir Birgitta. 

Hún segist ekki finna fyrir auknum þrýstingi frá hinum flokkunum. Það séu einhverjar tilraunir en flestar hafi snúist í höndunum á þeim. Píratar hafa reglulega verið gagnrýndir fyrir stefnuleysi og skort á stefnumálum. Birgitta segir að áherslur Pírata hafi verið skýrar frá því að þeir fóru að mælast með yfir 20% í skoðanakönnunum. „Að lögfesta nýju stjórnarskrá sem inniheldur mjög miklar breytingar. Miklu meiri breytingar held ég heldur en flestir gera sér grein fyrir. Til dæmis eru í þeim hlutur sem margir tala um á tyllidögum, meðal annars Píratar, að ráðherrar eigi ekki að hafa sæti á þingi, þeir þurfi að segja af sér þingmennsku til dæmis. Að hvert atkvæði hafi jafn mikið vægi alveg sama hvar þú ert á landinu, auðlindirnar séu alveg örugglega í þjóðareign og almenningur geti, það sem mér finnst svo fallegt ákvæði í nýju stjórnarskránni og er því miður ekki með í þessum tillögum frá stjórnarskrárnefnd og það er það að ef 10% landsmanna vilja leggja fram lög eða ályktun eða beiðni um skýrslu þá geta þeir gert það. Það er þetta beina lýðræði sem ég hallast að,“ segir Birgitta. 

Birgitta segir mikilvægt að ætla sér ekki of mikið til að lenda ekki í sömu vandræðum og þessi ríkisstjórn sem hafi lofað alltof miklu. Það sé því brýnt að fyrir kosningar liggi stjórnarsáttmálinn fyrir. „Mín einlæga von er sú að fólk hafi áhuga á að taka þátt í samfélaginu sínu og það hafi raunverulega áhuga á að fá þessi lagalegu verkfæri til þess að fá að segja sína skoðun og veita yfirvöldum aðhald.“ Mestu máli skipti að tryggja almenningi verkfæri þegar fólki misbýður hvernig valdhafar hafi hagað sér hvort sem það séu Píratar eða aðrir flokkar.