Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sækir um hæli eftir 17 ára búsetu í Noregi

31.10.2017 - 09:58
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot frá NRK
Mahad Abib Mahamud, sem nýlega var sviptur ríkisborgararétti í Noregi og vísað úr landi eftir 17 ára búsetu þar, hefur sótt um hæli hér á landi. Norski fjölmiðillinn TV2 greinir frá.

Mahamud var sviptur norskum ríkisborgararétti þar sem norsk yfirvöld telja að hann hafi ekki gefið ekki upp rétt föðurland á umsókn sinni um stöðu flóttamanns þar árið 2000 þegar hann var 14 ára gamall. Hann kveðst vera frá Sómalíu en norsk innflytjendayfirvöld telja að hann sé frá DjiboutiTV2 greinir frá því að norskum yfirvöldum hafi borist nafnlaus ábending þess efnis.

Hann fékk norskan ríkisborgararétt árið 2008 en var sviptur honum fyrr á þessu ári. Þegar Mahamud missti ríkisborgararéttinn stefndi hann norska ríkinu en tapaði málinu í héraðsdómi Óslóar 13. mars síðastliðinn. Haft er eftir honum í Nettavisen að hann hafi alltaf sagt sannleikann. „Ég veit hver ég er og hvað ég hef upplifað. Norsk stjórnvöld geta ekki breytt því. Ef sagan mín er ekki sönn, hvernig gat ég sagt hana aftur og aftur?“ sagði hann í samtali við Nettavisen eftir fyrsta dag réttarhaldanna í mars á þessu ári.

Kveðst hafa misst öll réttindi í Noregi

Málinu var áfrýjað til hæstaréttar Noregs en hefur ekki enn verið tekið fyrir þar. Mahamud er 31 árs lífverkfræðingur og starfaði á sjúkrahúsinu í Ullevål en þurfti að hætta störfum 20. janúar síðastliðinn vegna málsins. „Ég missi öll mín réttindi og það var erfitt að vera í Ósló án þess að hafa neitt til að lifa af. Ég var í neyð og þess vegna fór ég frá Noregi,“ segir hann í samtali við TV2.

Var á leið til Kanada

Mahamud var á leið frá Noregi til Kanada á mánudaginn var og millilenti á Keflavíkurflugvelli. Haft er eftir honum á TV2 að þar hafi landamæraverðir bent honum á að hann gæti sótt um stöðu flóttamanns á Íslandi, sem hann gerði. Hann kveðst hafa fengið góðar móttökur hér á landi og aðstoð frá Rauða krossinum við að sækja um hæli.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir