Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Sádí Arabía og Íran berjast í Jemen

10.03.2015 - 16:06
Mynd: AFP / AFP/Mohammed Huwais
Jemen er fátækt ríki á Arabíuskaganum sem er að breytast í vígvöll þar sem Íranar og Sádi-Arabar láta til sín taka.

Það er verið að draga víglínurnar í Jemen, fátækasta arabaríkinu í heiminum og það sem sérfræðingar telja að sé að verða upplausninni að bráð. Peter Salisbury býr í Sanaa, höfuðborg Jemens og hefur skrifað um málefni Mið-Austurlanda fyrir miðla eins og Economist, Financial Times og Foreign Policy. Hann segir að verulegar líkur séu á því að meiriháttar bardagar blossi upp í landinu og þeir verði þeim mun harðari í ljósi valdabaráttu Írans og Sádi-Arabíu í þessum heimshluta. Bæði þessi stórveldi hafa sýnt að þau eru reiðubúin að vígvæða samtök og hópa sem þeir telja sig geta stjórnað, þótt sporin hræði í Írak og Sýrlandi. Endurtaki sagan sig í Jemen gæti valdabarátta andstæðra fylkinga breyst í hrottafengið trúabragðastríð sem gæti klofið landið í herðar niður.

Útlagastjórn í eigin landi

Vígamenn Húta sem eru sítar, náðu höfðuborginni Sanaa á sitt vald í september með aðstoð vígahópa úr norðri og Írana. Forsetinn Abed Rabbo Mansour Hadi flúði höfuðborgina í síðasta mánuði og afturkallaði afsögn sína sem hann hafði verið neyddur til að skrifa undir. Hann er nú að setja saman ríkisstjórn í hafnarborginni Aden, næststærstu borg landsins og því í raun að mynda útlagastjórn innan landamæra Jemens. Sádí-Arabar fylgjast grannt með þróun mála. Þeim mistókst að brjóta Húta á bak aftur í skærum árið 2009 og líta á þá sem staðgengla Írana sem sækist eftir völdum í berskjölduðu nágrannaríki. Bæði Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa sent sendiherra sína til hafnarborgarinnar Aden til að styðja hinn flúna forseta. Forsetinn er reyndar í litlum metum enda flúði hann höfuðborgina nánast baráttulaust. Hann hefur nú myndað bandalag ýmissa ættbálka, aðskilnaðarsinna og íslamskra vígamanna sem nágrannaríkin vilja styðja með vopnum og fjárframlögum, gegn sítunum sem ráða í höfuðborginni.

Kastað í faðm Írana

Al Houti, leiðtogi sítanna í höfuðborginni, hefur gagnrýnt forsetann brottflúna, Bandaríkin og Sádi-Arabíu og sakað þá um að breyta Jemen í leppríki. Peter Salisbury segir það reyndar kaldhæðnislegt í ljósi þess að sjálfur hafi hann verið sakaður um að ganga erinda Íransstjórnar. Ráðist forsetinn á höfuðborgina með stuðningi Sádi-Araba sé ljóst að eina von Al Houtis sé að treysta á frekari stuðning frá Íran. Í síðustu viku tilkynnti Íransstjórn að  flogið yrði tvisvar á dag til höfuðborgarinnar Sanaa í Jemen. Það er mikilvægt fyrir sítana í höfuðborginni en að sama skapi ögrun við Sádi-Araba. Salisbury segir að stjórnvöld í Riyadh og Washington hafi ítrekað kastað Hútum í faðm Írana. Ríkin hafi stutt fyrrverandi forseta landsins í herferð gegn Hútum sem hafi í raun breytt þeim úr trúarhópi í öfluga vígasveit. Bandaríkin hafi séð forsetanum fyrrverandi fyrir þjálfun og vopnum sem beita átti gegn al Kaída en allir vissu að væru notuð í baráttunni gegn Hútum.

Deilt og drottnað í Jemen

Bandaríkin og Flóaríkin hafa lengi deilt og drottnað í Jemen. Sádi-Arabar hafa stutt mismunandi valdaklíkur á mismunandi tímum og Bandaríkin hafa einblínt á öryggishagsmuni sína og ekki látið lýðræði eða réttarríki trufla sig. Þannig studdu þeir Saleh forseta síðasta áratuginn þar til hann var hrakinn frá völdum. Flóaríkin og Bandaríkin geta því illa fullyrt að Íranar séu að eyðileggja einhvern stöðugleika í landinu eða sakað þá um afskiptasemi. Salisbury óttast að sagan í Írak, Líbíu og Sýrlandi sé að endurtaka sig í Jemen. Íran og Sádi-Arabía hafi fullan hug á að nota Jemen sem vígvöll í valdabaráttu sinni og Bandaríkin séu líkleg til að styðja Flóaríkin þegar til þess komi. Barátta um völd breytist fljótt í trúarbragðastríð fyrir atbeina stórveldanna.

Borgarastríð síta og súnníta

Vissulega skiptist Jemenar í síta og súnníta, aðskilnaðarsinna og sambandssinna, lýðræðissinna og einvaldssinna og svo framvegis en fyrst og fremst snúist deilurnar innan lands um staðbundin deilumál og yfirráð yfir auðlindum. Mismunandi valdaklíkur hafa löngum spilað á hagsmuni stórveldanna til að tryggja sér völd en nú virðast hagsmunir stórveldanna vera að breyta innanlandsófriði í borgarastríð milli síta og súnníta, líkt og víðar í Mið-Austurlöndum.

palmij's picture
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV