
Sádi Arabía fjármagnar byggingu moskunnar
Sendiherrann sagðist einnig hafa í gær skoðað lóðina í Sogamýri þar sem moskan mun rísa.
Vísir greindi frá því í vikunni að gert sé ráð fyrir að bygging moskunnar komi til með að kosta um 300 milljónir króna.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir þessar fregnir kalla á skýringar og þá í fyrsta lagi hvort þessir fjármunir hafi verið þegnir og hvort þeim hafi fylgt skilyrði. „Við búum auðvitað í frjálsu samfélagi sem leggur áherslu á mannréttindi og trúfrelsi þannig að öll trúfélög eiga að geta byggt sín bænahús og stundað sína trú. Um leið búum við í frjálsu samfélagi sem gerir kröfu til okkar að við spyrjum spurninga ef það kemur inn fjárstuðningur sem fylgja skilyrði eða einhverjar áherslur sem stangast á við mannréttindi eða það samfélag sem við við viljum búa í. Þá verður að setja spurningamerki við það og ræða það.“
Dagur segist jafnframt hafa óskað eftir því að mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar afli upplýsinga um fjármögnun stjórnvalda í Sádi Arabíu, reynslu og fordæmi nágrannaþjóða í þessum efnum og önnur atriði sem geti skipt máli. Hann segist ekki vita um fordæmi um slíka fjármögnun í Reykjavík.