Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sádi-Arabar réðust á uppreisnarmenn í Hodeida

20.09.2019 - 03:24
epa07854293 Men inspect debris of a destroyed house allegedly hit by a previous Saudi-led airstrike in Sana'a, Yemen, 19 September 2019. Yemen has been in the grip of a devastating power struggle between the Saudi-backed government and the Houthi rebels since late 2014, which sparked a full-blown armed conflict in March 2015 when the Saudi-led military coalition launched an airstrike campaign against the Houthis, claiming the lives of almost 100,000 people and displacing more than 3.6 million.  EPA-EFE/YAHYA ARHAB
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hernaðarbandalag Sádi-Araba, Jemensforseta og fleiri, gerði í gær loftárás á bækistöðvar uppreisnarsveta Húta í útjaðri hafnarborgarinnar Hodeida á suðuströnd Jemens. Er þetta fyrsta árás bandalagsins á uppreisnarmenn eftir að tvær stórar olíuvinnslustöðvar í Sádi Arabíu voru eyðilagðar í drónaárásum, sem jemenskir uppreisnarmenn lýstu á hendur sér. Engar fregnir hafa borist af mannfalli í árásum gærdagsins og uppreisnarmenn hafa ekki tjáð sig um þær enn sem komið er.

Í tilkynningu frá yfirstjórn hernaðarbandalagsins segir að fjórar bækistöðvar uppreisnarmanna hafi verið jafnaðar við jörðu í árásum gærdagsins. Er því haldið fram að bækistöðvarnar hafi verið ógn við öryggi sæfarenda í Bab al-Mandeb sundi og á sunnanverðu Rauðahafi. Skömmu áður en flugherinn lét til skarar skríða tilkynnti talsmaður hernaðarbandalagsins að tekist hefði að stöðva og eyðileggja ómannaðan, fjarstýrðan bát, hlaðinn sprengiefni, skammt undan Jemenströnd. 

Í drónaárásum uppreisnarmanna um síðustu helgi var annars vegar ráðist á Abqaiq-olíuhreinsistöðina, stærstu olíuhreinsistöð heims, og hins vegar á Khurais-olíuborsvæðið í austurhluta landsins. Eyðilegging olíuvinnslustöðvanna varð til þess að olíuútflutningur Sádi-Araba minnkaði um helming og heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði verulega.