Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sádar vilja gera Katar að eyríki

01.09.2018 - 05:12
Erlent · Asía · Katar · Sádi Arabía
epa06011226 (FILE) - A general view of the skyline of Doha, Qatar, 05 February 2010 (reissued 05 June 2017). According to media reports, Egypt, Saudi Arabia, Bahrain and the United Arab Emirates cut off diplomatic ties with Qatar on 05 June 2017, accusing
Frá Doha í Katar. Mynd: EPA
Einn nánasti ráðgjafi Mohammed bin Salmans, krónprins Sádi-Arabíu, virtist staðfesta í gær að alvara sé í hugleiðingum Sáda að gera Katar að eyríki. Hugmyndin er að grafa skurð eftir endilöngum landamærum Sádi-Arabíu og Katars, sem þýðir að ekkert land liggi þá að Katar.

Saud al-Qahtani skrifaði á Twitter í gær að hann væri orðinn langþreyttur á að bíða eftir fullkláraðri framkvæmdaáætlun fyrir Salwa-eyju. Það verði stórkostleg, söguleg framkvæmd sem breyti landsvæðinu.

Með færslunni virðist hann staðfesta fregnir sem birtust í apríl á fréttavef Sabq, sem er með náin sambönd inn í konungsfjölskyldu Sádi-Arabíu. Samkvæmt drögum að áætluninni um að grafa skurð við landamærin verður hann um 60 kílómetra langur og um 200 metrar á breidd. Talið er að kostnaðurinn verði um 2,8 milljarðar riyala, jafnvirði rúmlega 80 milljarða króna. Áætlanir gera ráð fyrir því að á hluta svæðisins verði búin til aðstaða til að losa kjarnorkuúrgang.

Skurðurinn yrði einnig táknrænn fyrir ágreininginn á milli ríkjanna. Sádi-Arabía, ásamt bandaþjóðum sínum, sleit viðskipta- og stjórnmálatengslum við Katar í júní í fyrra. Segja Sádar að stjórnvöld í Katar styðji Íransstjórn og hryðjuverkaöfl. Stjórnvöld í Doha neita öllum ásökunum. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV