
SA og BÍ greinir á um framkvæmd verkfalls blaðamanna
Segir SA reyna að koma í veg fyrir vinnustöðvunina
Í dreifibréfi, sem Samtök Atvinnulífsins sendu til miðla, er áréttað að verkfallið nái ekki til starfa eða starfsgreina, einungis þeirra félagsmanna Blaðamannafélagsins sem sinna þessum tilteknu störfum og verkfallsboðunin nær til. Félagsmenn annarra stéttarfélaga eigi að sinna störfum sínum eins og áður. Þá sé stjórnendum heimilt að ganga í störf starfsmanna í verkfalli.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, segir að Samtökin reyni að koma í veg fyrir að löglega boðuð vinnustöðvun nái fram að ganga. Ekki sé hægt að skilja dreifibréfið öðruvísi en að utanfélagsfólk geti þá sinnt þeirri starfsemi sem verkfallið nær til, og því jafnframt haldið fram að verktakar megi vinna og ganga í störf stráðinna blaðamanna.
Hjálmar segir að utanfélagsfólk eigi að sjálfsögðu að vera bundið af verkföllum, annars væri vinnustöðvun til lítils. Blaðamannafélagið muni þó að sjálfsögðu fara að lögum. Hann eigi ekki von á öðru en að verkföll fari vel fram í dag en segir afstöðu Samtakanna þó ekki uppörvandi. Félagið hefur óskað eftir afstöðu lögmanns til lagatúlkunar Samtaka atvinnulífsins.
Verkföll áætluð næstu vikur
Verkföllin verða endurtekin næstu tvo föstudaga, náist ekki samningar, og standa þá lengur. Fimmtudaginn 28. nóvember verður vinnustöðvun hjá blaðamönnum sem sinna störfum við prentútgáfu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, auk ljósmyndara og tökumanna, frá klukkan 10 til 22. Fréttablaðið greindi frá.
- Sjá einnig: „Þetta gefur okkur byr undir báða vængi“
Samningar við Samtök atvinnulífsins hafa ekki náðst eftir tíu mánaða samningaumleitanir og sem stendur hafa engir formlegir samningafundir verið boðaðir á milli Blaðamannafélagsins og Samtakanna.
Í síðustu viku samþykktu félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands, með afgerandi meirihluta, að fara í verkfall. Á kjörskrá voru 211 en 131 félagsmenn kusu. Þar af kusu 109 með verkfalli eða rúmlega 83 prósent. 17 greiddu atkvæði gegn verkfalli og auðir eða ógildir seðlar voru fimm.
Fréttin hefur verið uppfærð.