Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

SA mótfallin frumvarpi um lobbýisma

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Samtök atvinnulífsins eru mótfallin því að komið verði á sérstakri skrá yfir hagsmunaverði og hömlur settar á það hvenær fyrrum ráðamenn og embættismenn geta hafið störf fyrir hagsmunasamtök. Lobbýismi skapi ekki sömu hættu á hagsmunaárekstrum hér og í stærri þjóðfélögum.

 

Frestur til að senda inn umsagnir um frumvarp til breytinga á lögum um Stjórnarráð Íslands rennur út á morgun og enn sem komið er hefur aðeins ein umsögn borist, frá Samtökum atvinnulífsins. 
Frumvarpið var samið til að bregðast við tilmælum frá GRECO, samtökum ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu. Þau hafa síðastliðin ár lagt til að stjórnvöld geri lagabreytingar til að girða fyrir ýmis konar spillingarhættu í kerfinu og hafa stjórnvöld þegar brugðist við stórum hluta þeirra. Markmiðið með fyrirhugaðri lagabreytingu er að skapa traust og tryggja að æðstu valdhafar framkvæmdarvalds vinni störf sín í þágu almennings af heilindum. Það snýr meðal annars að hagsmunaskráningu, því að setja skýrar reglur um aukastörf ráðamanna, koma upp opinberri skrá yfir alla sem hafa það fyrir aðalstarf að gæta hagsmuna einkaaðila gagnvart stjórnvöldum, hafa eftirlit með hagsmunaskráningu og skrá yfir hagsmunaverði og sjá til þess að fyrrum ráðamenn taki ekki að sér slík störf fyrr en að minnsta kosti átta mánuðum eftir að störfum þeirra eða rétti til biðlauna lýkur. 

Ekki þörf á því að skrá hagsmunaaðila hér

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins eru gerðar athugasemdir við opinbera skráningu hagsmunavarða, eftirlit með þeim, sem og átta mánaða biðtímann. Þar segir að hér á landi tíðkist ekki að spilling birtist í því að sterkir sérhagsmunaaðilar nái tangarhaldi á stjórnvöldum og hafi áhrif á þau með viðbrögðum sínum við einstökum ákvörðunum, líkt og talað hafi verið um í skýrslu GRECO. Samtökin telji ekki þörf á því að skrá hagsmunaaðila hér á landi því aðstaðan sé um flest frábrugðin því sem gerist í stærri þjóðfélögum. Í langflestum tilvikum sé ljóst hvaða hagsmunum einstök samtök eða starfsmenn þjóni, „hvort sem það eru samtök fyrirtækja, verkafólks, umhverfisverndarfólks, neytenda, dýravina eða önnur“.  

Biðtíminn tjón fyrir samfélagið

Í umsögninni kemur fram að samtökin hafi um áratugaskeið ráðið til sín fyrrum ráða- og embættismenn, sömuleiðis hafi fyrrum starfsmenn samtakanna farið til starfa innan stjórnsýslunnar.  Þetta sé af hinu góða. „Það er jákvætt að einkafyrirtæki finni hæfa starfsmenn í þjónustu ríkis og sveitarfélaga og að yfirsýn og þekking þeirra sem af einhverjum ástæðum hætta í stjórnmálum nýtist sem víðast. Takmörkun á starfsvali getur því ekki orðið til annars en tjóns fyrir samfélagið.“ 

 Samtökin lýsa sig andvíg því að sett séu yfirgripsmikil ákvæði um takmörkun á almennu atvinnufrelsi starfsmanna stjórnarráðsins og kjörinna fulltrúa. Það þurfi að meta hvert tilfelli, skilgreina hvaða upplýsingar viðkomandi búi yfir og hvaða upplýsingar þurfi sérstaka vernd.  

Telja að stjórnvöld ættu frekar að einfalda

Hvað varðar fyrirhugað eftirlitskerfi segir í umsögninni að eftirlit megi ekki vera of íþyngjandi, á Íslandi sé þegar aragrúi stofnana sem annist opinbert eftirlit, Íslendinar búi við eitt flóknasta eftirlitsreglukerfi allra OECD þjóða og slíkg geti beinlínis hamlað hagvexti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hafi verið boðað átak í einföldun regluverks og er það mat samtakanna að stjórnvöld ættu frekar að einbeita sér að einföldun en auknu eftirliti og þyngri reglubyrði sem meðal annars beinist að íslensku atvinnulífi. 

Eitt stöðugildi

Verði af lagabreytingunni er búist við því að það þurfi að ráða í eitt stöðugildi, líklega hjá forsætisráðuneytinu. Áhrif á ríkisfjármál felast fyrst og fremst í því að réttur getur skapast til biðlauna hjá fyrrum ráðamönnum sem gætu þurft að bíða eftir því að fá að hefja störf fyrir hagsmunasamtök. 
 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV