Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

S-Afríka lokar ræðisskrifstofum í Nígeríu

05.09.2019 - 12:13
Looters make off with goods from a store in Germiston, east of Johannesburg, South Africa, Tuesday, Sept. 3, 2019. Police had earlier fired rubber bullets as they struggled to stop looters who targeted businesses as unrest broke out in several spots in and around the city. (AP Photo/Themba Hadebe)
 Mynd: AP
Utanríkisráðuneyti Suður-Afríku lokaði í gær öllum ræðisskrifstofum og sendiráðum í nígerísku borgunum Abuja og Lagos. Ráðist var á fyrirtæki í eigu Suður-Afríkubúa í borgunum, í hefndarskyni fyrir árásir á fyrirtæki í erlendri eigu í Jóhannesarborg. 

Lunga Ngqengelele, talsmaður utanríkisráðuneytis Suður-Afríku, segir ákvörðunina tekna eftir að hópur fólks reyndi að brjóta sér leið inn á ræðisskrifstofuna í Lagos. Skrifstofurnar verði opnaðar um leið og stjórnvöld telji það óhætt.

Öryggisgæsla var hert bæði í Nígeríu og Suður-Afríku í gær eftir að banvænar árásir á fyrirtæki í erlendri eigu í Jóhannesarborg leiddu til hefndarárása gegn suður-afrískum fyrirtækjum í Nígeríu. Ástandið hefur einnig valdið pólitískum titringi á milli landanna. Nígeríustjórn kveðst ætla að sniðganga alþjóðlega efnahagsráðstefnu í Höfðaborg. Þá var sendiherra Suður-Afríku í Nígeríu kallaður á fund stjórnvalda í Nígeríu, auk þess sem forsetinn Muhammadu Buhari ætlar að senda fulltrúa til þess að lýsa óánægju sinni við Cyril Ramaphosa, forseta Suður-Afríku.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV