Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ryanair þarf að greiða vegna gossins

31.01.2013 - 10:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Evrópudómstóllinn úrskurðaði í morgun að lággjaldaflugfélagið Ryanair ætti að bæta farþega sínum kostnað sem hann varð fyrir þegar flugferð var aflýst í eldgosinu í Eyjafjallajökli fyrir tæpum þremur árum.

Ryanair áfrýjaði dómi frá í fyrra í máli konu sem varð strandaglópur í Portúgal meðan á gosinu stóð. Hún krafðist þess að fá greiddar jafnvirði tæplega 200 þúsund íslenskra króna fyrir gistingu og uppihald. Ryanair segist þegar hafa greitt jafnvirði rúmlega fjögurra milljarða króna í bætur til farþega, en mörgum kröfum hafi verið hafnað því þær hafi þótt óhóflega háar. Taldi flugfélagið að um svo ófyrirséðan atburð hefði verið að ræða að ekki væri hægt að krefja það um greiðslu á ýmsum ótengdum kostnaði. Evrópudómstóllinn telur að atburðir eins og gosið losið ekki flugfélög undan þeirri ábyrgð að þjónusta viðskiptavini sína en kröfurnar verði að vera réttmætar.