RÚV núll hefur daglegar útsendingar í samkomubanni

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV

RÚV núll hefur daglegar útsendingar í samkomubanni

26.03.2020 - 08:55
Núllstillingin, nýr þáttur á vegum RÚV núll, hefur göngu sína í dag með beinni útsendingu úr Eldborg í Hörpu. Þátturinn er hluti af verkefninu MenntaRÚV og er ætlað er að koma til móts við unga fólkið sem hefur upplifað gríðarlegt rask á sínu daglega lífi á meðan samkomubanni stendur.

Það eru þau Atli Már Steinarsson, Helga Margrét Höskuldsdóttir, Jafet Máni Magnúsarson og Snærós Sindradóttir sem fara með umsjón þáttarins, sem sendur verður út alla virka daga. Undanfarna daga hefur verið unnið hratt að því að undirbúa þáttinn enda ófyrirséð hversu lengi röskun verður á skólahaldi í framhaldsskólum og háskólum. 

Þetta eru skrýtnir tímar, það fer ekki fram hjá neinum. Við ætlum okkur fyrst og fremst að vera til staðar með skemmtilegt og fræðandi efni fyrir okkar markhóp. Við fáum til okkar góða gesti, sjáum gommu af skemmtilegu sjónvarpsefni og svo getur auðvitað allt gerst í beinni útsendingu. 

segir Snærós Sindradóttir, verkefnastjóri RÚV núll. „Við viljum líka endilega vera í góðu samtali við áhorfendur um hvað þeir vilja sjá eða hvað þeir hafi fyrir stafni þessa dagana. Það er um að gera að hafa samband.“

Gestir þessa fyrsta þáttar eru ekki af verri endanum en Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn sem staðið hefur vaktina keikur í baráttunni við kórónaveiruna, kemur í settið til Atla og Snærósar og ætlar að vera á persónulegu nótunum í þetta skiptið. Þá koma fulltrúar frá Hugrúnu geðfræðslufélagi og gefa nokkur góð ráð um hvernig megi passa upp á andlega heilsu þessa dagana. Þetta og margt margt fleira í þætti dagsins. 

Núllstilling á MenntaRÚV er í beinni útsendingu alla virka daga frá 16-18 á RÚV 2 og ruv.is. Hægt er að hafa samband við þáttastjórnendur á samfélagsmiðlum RÚV núll á Instagram og Facebook, en einnig í gegnum netfangið [email protected]

Tengdar fréttir

Í umræðunni

RÚV á tímum COVID-19

Sjónvarp

RÚV kemur til móts við almenning með aukinni dagskrá