Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Rútuslys við Lýsuhól

19.11.2017 - 17:49
Mynd með færslu
 Mynd: Daði Jörgensson - RÚV
Rútuslys varð á sjötta tímanum við afleggjarann við Kálfárvelli, skammt frá Lýsuhól á sunnanverðu Snæfellsnesi. Minnst fimm eru slasaðir eftir að rútan fór á hliðina. Ekki er vitað hve mikið fólkið er slasað. Sjúkrabílar, tækjabílar, lögregla, björgunarsveitir og þyrla Landhelgisgæslunnar eru á vettvangi. Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum voru um fimmtán manns í rútunni.

Búið er að koma flestum farþegum í skjól í annarri rútu. Viðbragðsaðilar frá lögreglunni á Vesturlandi eru á leið á slysstað. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg er búið að virkja hópslysaáætlun á Snæfellsnesi. Búið er að kalla út björgunarsveitir á Vesturlandi vegna slyssins og fyrsti hópurinn var nýkominn á vettvang rétt fyrir klukkan 18. 

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Þór Þórisson - RÚV

Björgunarsveitir lokuðu veginum á sunnanverðu Snæfellsnesi um tíma frá vegamótum og var vegurinn lokaður í báðar áttir. Vegurinn var opnaður aftur fyrir umferð skömmu fyrir klukkan 19 í kvöld. Þarna er vonskuveður og mikil hálka.

Fréttin hefur verið uppfærð

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV