
Kristilegir demókratar og Frjálslyndir hljóta 19 þingmenn hvor og fjölga báðir þingsætum frá síðustu kosningum. Verkamannaflokkurinn, samstarfsflokkur Frelsis- og lýðræðisflokksins í núverandi stjórn, geldur afhroð, hlýtur innan við sex prósent atkvæða og níu þingmenn, en var með nærri fjórðungsfylgi fyrir fimm árum og 38 þingmenn. Vinstri grænir auka fylgi sitt verulega og er nú í fyrsta sinn stærsti vinstri flokkurinn á hollenska þinginu, með 14 þingmenn.
Geert Wilders kveðst reiðubúinn að vinna með hverjum sem er í samsteypustjórn. Þetta sagði hann við blaðamenn í Hollandi í gærkvöld. Ef aðrir flokkar eru ekki tilbúnir til samstarfs er hann tilbúinn til þess að styðja stjórnvöld í þeim málum sem eru mikilvæg Frelsisflokknum. Wilders skrifaði á Twitter í gærkvöld að flokkur hans væri á meðal sigurvegara kosninganna þar sem hann hafi fjölgað þingsætum sínum.
PVV-stemmers bedankt!
We hebben zetels gewonnen!
Eerste winst is binnen!En Rutte is nog lang niet van mij af!!
— Geert Wilders (@geertwilderspvv) March 15, 2017
Wilders sagði að ef Frelsis- og lýðræðisflokkur forsætisráðherrans Mark Rutte, sem hafi tapað þingsætum, ætli að mynda samsteypustjórn með öðrum flokkum sem töpuðu, verði að mynda sterkan minnihluta á þinginu með sigurvegurum á borð við Frelsisflokkinn.
Rutte sagði stuðningsmönnum Frelsis- og lýðræðisflokksins í gærkvöld að hollenska þjóðin hafi hafnað popúlisma, eftir með atkvæðum sínum. Skilaboð flokksins til Hollands um að haldið verði áfram á sömu braut, að halda landinu öruggu, stöðugu og blómstrandi, hafi skilað sér til þjóðarinnar.