Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Russell Crowe tístir um Gagnamagnið

Mynd með færslu
 Mynd: samsett - RÚV/EPA

Russell Crowe tístir um Gagnamagnið

19.02.2020 - 10:40

Höfundar

Fjör er að færast í leikana í aðdraganda Söngvakeppnisúrslitanna og keppendum berst stuðningur úr ýmsum áttum. Fátt hefur reynst jafn óvænt enn sem komið er og þegar Russell Crowe blandaði sér óvænt í málið í morgun. Það kom meðlimum Gagnamagns Daða sjálfsagt skemmtilega á óvart þegar stórleikarinn tvítaði um lag þeirra.

Russell segir reyndar lítið um lagið í deilingunni á Twitter en það má lesa úr uppátækinu velþóknun leikarans á laginu. Hann skrifar „Song“ eða einfaldlega „Lag“ og deilir laginu Think about things en miklar umræður hafa skapast undir deilingunni frá aðdáendum leikarans sem eru flestir ánægðir með að Russell sé að bera út boðskap Gagnamagnsins. Það er ljóst að Russell fylgist með Söngvakeppninni hér heima, eins og skiljanlegt er, og virðist hann vera á Daðavagninum fyrir úrslitin 29. febrúar.

Gladiator stjarnan hefur áður tjáð sig um Eurovision á Twitter. Árið 2015 fagnaði hann því meðal annars þegar Íslandsvinurinn Måns Zelmerlöv sigraði keppnina og óskaði samlöndum sínum í Ástralíu, þar sem nýsjálenski leikarinn hefur búið stærstan hluta ævi sinnar, til hamingju með fimmta sætið.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Íva, Daði og Nína áfram í úrslit Söngvakeppninnar

Popptónlist

Daði og gagnamagnið með myndband