Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rússar ritskoða ævisögu Elton John

Mynd: AP / AP

Rússar ritskoða ævisögu Elton John

01.06.2019 - 12:26

Höfundar

Ný mynd byggð á ævi og ferli breska tónlistarmannsins Elton John verður sýnd í örlítið styttri útgáfu í Rússlandi. Búið er að klippa einar fimm mínútur úr myndinni þar í landi því atriðin þóttu brjóta bann við samkynhneigðum áróðri sem er í gildi í Rússlandi. Elton John og sá sem leikur hann í myndinni, gagnrýna ákvörðunina harðlega.

Elton John er ekki bara einn söluhæsti tónlistarmaður sögunnar heldur á hann einnig að baki býsna skrautlegan feril, og ekki bara hvað klæðaburð varðar. Elton John glímdi lengi við áfengis- og eiturlyfjafíkn og þurfti að svara vangaveltum um kynhneigð sína þangað til hann kom út úr skápnum snemma á tíunda áratugnum. 

Þegar ráðist var í gerð kvikmyndar um ferilinn vildi Elton John ekki að ferill hans yrði hvítþvegin. Í Rocketman, sem frumsýnd var víða um heim fyrr í vikunni, má því sjá Taron Egerton í hlutverki Eltons bæði neyta eiturlyfja og láta vel að karlmönnum. Myndin er bönnuð innan 12 ára hér á landi og áhorfendur undir 17 ára þurfa að vera með einhvern sér eldri og reyndari við hlið í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum. 

epaselect epa07575333 British musician and producer Elton John (L) and British actor Taron Egerton (R) pose during the photocall for 'Rocketman' at the 72nd annual Cannes Film Festival, in Cannes, France, 16 May 2019. The movie is presented out of competition at the festival which runs from 14 to 25 May.  EPA-EFE/SEBASTIEN NOGIER
 Mynd: AP
Elton John og Taron Egerton, sem leikur hann í myndinni, á frumsýningu í Cannes.

Í Rússlandi verða hins vegar fimm mínútur klipptar út úr myndinni, vegna þess að samkvæmt landslögum er allur áróður fyrir samkynhneigð bannaður í landinu. Og það eru ekki bara leiknu atriðin í myndinni sem innihalda ástarathlot tveggja karla sem eru klippt út þar í landi heldur einnig ljósmynd af Elton John og eiginmanni hans, David Furnish, sem birtist í lok myndarinnar. 

Elton John birti yfirlýsingu á twitter-síðu sinni í gær þar sem hann fordæmir ritskoðunina. Hann segir hana sýna svart á hvítu þá aðgreiningu sem enn fyrirfinnist í heiminum. Tónlistarmaðurinn hefur undanfarin ár verið iðinn við að gagnrýna stjórnvöld í Rússlandi fyrir hin umdeildu lög og hefur meðal annars óskað eftir fundi með Vladimir Pútín til að ræða málin. 

Í sama streng tekur Egerton, sem leikur Elton í myndinni. Á Instagram síðu sinni segist hann afar sorgmæddur yfir ákvörðuninni og segir að ást sé alltaf ást, hún sé hafin yfir málamiðlanir.