Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rússar og Úkraínumenn skiptust á föngum

07.09.2019 - 13:45
epa07825087 Russian-Ukrainian journalist Kirill Vyshinsky (C) who was handed over to Russia by Ukraine, and Rossiya Segodnya news agency director Dmitry Kiselev leave the Vnukovo-2 airport in Moscow, Russia, 07 September 2019. According to media reports, a mass prisoner exchange between Russia and Ukraine was agreed in the 35-for-35 format.  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV
Tveir fanganna sem Úkraínumenn slepptu úr haldi, við komuna til Moskvu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Rússnesk og úkraínsk stjórnvöld skiptust í morgun á sjötíu föngum sem þau hafa haldið vegna átakanna í austurhluta Úkraínu. Forseti Úkraínu fagnaði fangaskiptunum sem fyrsta skrefinu í átt að lausn á deilu ríkjanna. Hollensk stjórnvöld gagnrýna hins vegar að Úkraínumenn hafi sleppt manni sem er álitinn lykilvitni vegna malasísku farþegaþotunnar sem var skotin niður árið 2014.

Fangaskiptin eiga sér nokkurn aðdraganda og hefur spenna vegna þeirra byggst upp síðustu daga. Meðal þeirra sem Rússar slepptu eru 24 úkraínskir sjóliðar og úkraínskur kvikmyndagerðarmaður. Sá síðastnefndi fór í langt hungurverkfall á síðasta ári til að knýja á um lausn sína og annarra Úkraínumanna. 

Vladimir Tsemakh, félagi í sveitum úkraínskra aðskilnaðarsinna, er meðal þeirra sem Úkraínumenn slepptu. Hann er talinn hafa upplýsingar um það hvernig farþegaþotan MH17 var skotin niður. 298 fórust með flugvélinni árið 2014. Flugvélin var á leið frá Amsterdam í Hollandi til Kuala Lumpur, höfuðborgar Malasíu þegar hún var skotin niður yfir austanverðri Úkraínu. 

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fagnaði fangaskiptunum og kvað þau vekja vonir um frið. Hið sama gerði fulltrúi Bandaríkjastjórnar í málefnum Úkraínu. Hollensk stjórnvöld reyndu að koma í veg fyrir lausn Tsemakh og lýstu vonbrigðum sínum með að honum hefði verið sleppt úr haldi. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV