Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Rússar fordæma Ísraela fyrir árás á Sýrland

Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnvöld í Moskvu saka Ísraela um að brjóta gegn fullveldi Sýrlands og stefna tveimur farþegaþotum í stórhættu þegar tvær ísraelskar orrustuþotur gerðu eldflaugaárás á skotmörk vestur af Damaskus á þriðjudag. Ísraelar neituðu í fyrstu öllum ásökunum en nú hafa erlendir fjölmiðlar eftir heimildarmanni í röðum Ísraelshers, að þeir hafi gert árangursríka árás á sýrlensk hernaðarskotmörk.

Í yfirlýsingu frá rússneska varnarmálaráðuneytinu segir að Rússlandsstjórn hafi miklar áhyggjur af árásunum og hvernig að þeim var staðið. Þær feli í sér gróft brot gegn fullveldi Sýrlandsríkis. Sýrlenskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að loftvarnarkerfi landsins hefði skotið niður fjölda eldflauga, sem beint var að skotmörkum við herflugvöll nærri Damaskus.

Í yfirlýsingu rússneska varnarmálaráðuneytisins segir enn fremur að árásir Ísraela hefðu ógnað tveimur farþegaþotum með beinum og ótvíræðum hætti. Árásirnar hafi verið gerðar í sömu mund og tvær farþegaþotur, ekki frá Rússlandi þó, hafi verið að koma inn til lendingar á flugvöllunum í Beirút og Damaskus. Þrír sýrlenskir hermenn særðust í árásinni.

Samkvæmt sýrlenskum miðlum var alls sextán eldflaugum með sprengjuoddum skotið, en 14 þeirra voru skotnar niður áður en þær náðu til jarðar. Hinar tvær ollu töluverðu tjóni á einu vopnabúri á herflugvelli vestur af Damaskus, samkvæmt sömu heimildum.

Ísraelar héldu því fram í fyrstu að herþotur þeirra, sem voru í líbanskri lofthelgi þegar þær létu til skarar skríða, hefðu verið að verjast loftvarnarskothríð Sýrlendinga. Erlendir fjölmiðlar, þar á meðal norska ríkisútvarpið NRK, hafa síðan greint frá því að ónafngreindur heimildarmaður í Ísraelsher hafi staðfest að þotur ísraelska flughersins hafi farið í árásarleiðangur og hæft mörg mannvirki sem nýtt voru af hersveitum Írana og Hisbollah. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV