Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rússar fljúga upp að Íslandi

24.04.2012 - 17:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Rússneskar orrustuþotur flugu upp að íslenska flugumsjónarsvæðinu í síðustu viku, í annað skipti á þessu ári. Þótt íslensk stjórnvöld hafi beðið um að látið sé vita, sjá Rússarnir ekki ástæðu til þess.

Æfingaflugferðir Rússa lágu niðri í á annan áratug en 2006 ákvað Pútín þáverandi og verðandi forseti að hefja ferðirnar ný. Orrustuþotur komu upp að íslenskri lofthelgi og  stjórnvöldum var ekki skemmt. Rússar sögðust hafa allan rétt til að æfa sig og herþotur NATO-ríkjanna voru settar í viðbragðsstöðu, í fyrsta sinn um langa hríð, þegar rússnesku vélarnar voru á ferð við Noreg, Ísland og Bretlandseyjar.

Lítið hefur frést af ferðum þessara véla undanfarin ár, en það er þó ekki vegna þess að þær hafi lagst af. Í liðinni viku kom tvær herþotur inn á loftrýmiseftirlitssvæðið við Ísland, í annað  sinn á þessu ári, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Í fyrra voru æfingaferðirnar fimm - en deilt er um hvort tilgangur þeirra sé raunverulega að æfa flugmenn eða að minna á getu Rússa til að láta til sín taka á svæði sem vaxandi áhugi er á, norðurslóðum og við Norðurpólinn. Árið 2010 komu rússneskar orrustuþotur þrisvar nálægt Íslandi og 2009 sjö sinnum.

Vélarnar eru aldrei færri en tvær á ferðinni og oftast eru þetta eldgamlar skrúfuþotur af gerðinni Tupulev 95, svokallaðir birnir, en í nokkur skipti hafa mun nýrri vélar, hljóðfráar Tupulev 160 vélar, sem kallaðar eru Blackjack, verið á ferð.

Rússar láta aldrei vita af fyrirætlunum sínum og þótt vélarnar breyti iðulega mynstrinu sem þær fljúga eftir, liggur leiðin oftast suður með landinu í átt að Færeyjum og þaðan til Bretlandseyja. Bretar eða Norðmenn fljúga þá til móts við vélarnar, auðkenna þær og fylgja út af loftrýmissvæðinu. Þegar flugsveit er stödd hér á landi við eftirlit sér hún um þetta hlutverk. Þjóðverjar voru hér á ferð í mars og Bandaríkjamenn eru væntanlegir í maí.