Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Rúmlega 240 aftökur á 200 árum

Mynd:  / 

Rúmlega 240 aftökur á 200 árum

08.02.2019 - 15:13

Höfundar

„Það kom mér verulega á óvart hversu margir Íslendingar voru teknir af lífi. Þetta eru rúmlega 240 aftökur á 200 árum. Þannig að það er stundum meira en ein aftaka á ári,“ segir Steinunn J. Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands um rannsókn sína á aftökum á Íslandi eftir siðaskipti.Hún kynnir einn anga rannsóknarinnar í fyrirlestri um afdrif þjófa og utangarðsfólks á 17. og 18. öld á málþingi Félags um átjándu aldar fræði í Þjóðarbókhlöðunni á laugardag.

Fyrir siðaskipti fór kirkjan með refsivald og þó að einhverjar aftökur hafi átt sér stað á þeim tíma snerust refsingar að mestu leyti um bannfæringar. Fólk óttaðist mest að lenda í hreinsunareldinum eftir dauðann. En við siðaskipti færðist refsivaldið til veraldlegra valdhafa og þá færðust líkamlegar refsingar og aftökur verulega í aukana, rúmlega 200 Íslendingar voru teknir af lífi á 240 árum.

„Það sem kom mér mest á óvart var að þjófar voru stærsti hópur fólks sem var tekinn af lífi á Íslandi. Þetta voru 76 þjófar sem voru teknir af lífi og þeir voru yfirleitt hengdir. Það hefur verið ákveðin hreinsun í gangi þar sem yfirvöld hafa verið að losa sig við heimilislausa,“ segir Steinunn.

Mynd með færslu
 Mynd:
Steinunn J. Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði

Hún segir að þeir sem voru líflátnir hafi sjaldnast verið bíræfnir glæpamenn heldur hafi þetta yfirleitt verið heimilislaust fólk sem var að stela sér til matar. En flakkarar, betlarar og annað utangarðsfólk voru álitnir letingjar og samfélagsmein sem þurfti að útrýma.

Steinunn segir það einnig hafa verið algengt að þjófar hafi verið limlestir, til dæmis skorið á hásinar þeirra og þeir „fatlaðir“. Jafnvel eru dæmi um að fólk hafi verið látið velja milli limlestingar eða aftöku.

Eftir því sem líður á átjándu öldina fækkar aftökum á utangarðsfólki fyrir smáglæpi en þeim var þó enn refsað harkalega. „Þessir dauðadómar breyttust í ævilanga þrælkunarvinnu og flestir sendir á Brimarhólma [í Kaupmannahöfn] þar sem að þeir lifðu sjaldnast lengi. Það var því líka hræðilegur dómur. Þetta var einhverskonar hreinsun samt sem áður, en fólk fékk að halda lífinu.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Á mörkum mennskunnar