Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Rúm 59 prósent á móti aðild að ESB

01.02.2016 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
59,1 prósent landsmanna er á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB). Þetta kemur fram í nýrri könnun Gallup fyrir Já Ísland, samtök Evrópusinna. Þá eru 40,9 prósent fylgjandi því að Ísland gerist aðili að sambandinu.

Könnunin var framkvæmd dagana 14. til 25. janúar. Úrtakið var 1.440 manns af öllu landinu, átján ára og eldri, valdir af handahófi úr viðhorfahópi Gallup. Þátttökuhlutfall var 61,7 prósent.

Spurt var: Ef aðild að Evrópusambandinu yrði borin undir þjóðaratkvæði í dag, hvernig telur þú líklegast að þú greiddir atkvæði? Alls sögðust 36,7 prósent svarenda að þau kysu örugglega á móti aðild, og 22,4 prósent sögðu sennilegt að þau gerðu slíkt hið sama. 

Þá sögðust 15,9 prósent þeirra sem tóku þátt að þau kysu örugglega með aðild, og slétt 25 prósent sögðu að þau kysu sennilega með aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í síðustu könnun Gallup á viðhorfi almennings til aðildar að ESB, sem framkvæmd var í mars á síðasta ári, voru 59,7 prósent svarenda á móti aðild að sambandinu, og 40,3 prósent því fylgjandi.

Karlar harðari í afstöðu sinni

Ekki var marktækur munur á afstöðu kynja til aðildar að ESB. Þannig sögðust 60 prósent karla vera andvíg aðild, og 59 prósent kvenna. Karlar voru þó harðari í afstöðu sinni, 41 prósent þeirra sögðu að þeir kysu örugglega gegn aðild að sambandinu, samanborið við 32 prósent kvenna.

Andstaða við aðild að ESB er mest áberandi í yngstu og elstu aldursflokkunum. Þannig sögðust 66 prósent svarenda í aldursflokknum 18 til 24 ára vera á móti aðild að ESB og sama hlutfall var á meðal svarenda í aldursflokknum 55 ára og eldri.

Þá reyndist andstaðan við inngöngu mest á meðal íbúa utan höfuðborgarsvæðisins. 51 prósent íbúa Reykjavíkur er á móti aðild að ESB, og 57 prósent íbúa í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur sömuleiðis. Á landsbyggðinni mældist andstaðan 69 prósent.

Andstaða mest meðal þeirra tekjulægri

Andstaða við inngöngu Íslands í Evrópusambandið er mest hjá hinum tækjulægstu. Þannig reyndust 86 prósent svarenda, með fjölskyldutekjur undir 250 þúsund krónum, á móti aðild að ESB á meðan 46 prósent svarenda með fjölskyldutekjur yfir milljón á mánuði, voru sama sinnis.

Þá var töluverður munur á afstöðu svarenda eftir menntun. Þannig sögðust 67 prósent svarenda með grunnskólapróf vera á móti aðild Íslands að ESB, 63 prósent svarenda með framhaldsskólapróf eru á sömu skoðun, og 44 prósent háskólamenntaðra.

90 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks á móti aðild

Andstaðan var mest á meðal kjósenda Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þannig sögðust 77 prósent kjósenda Framsóknarflokks á móti aðild Íslands að ESB og 90 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks. Stuðningur við aðild að ESB var aftur á móti mestur á meðal kjósenda Samfylkingarinnar, 92 prósent þeirra sögðust fylgjandi aðild.

Loks sögðust 45,4 prósent svarenda hlynnt því að taka upp að nýju aðildarviðræður við Evrópusambandið, og 40,3 prósent voru því andvíg. Þá sögðust 14,3 prósent svarenda hvorki hlynnt eða andvíg því að taka upp aftur aðildarviðræður við sambandið.

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV