Rúm 16% barna hafa verið beitt ofbeldi

22.05.2019 - 07:58
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Eitt af hverjum fimm börnum á Íslandi hefur verið beitt líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur. Þetta eru niðurstöður samantektar sem Rannsókn og greining og Stígamót unnu fyrir Unicef. Samtökin telja að ofbeldi sé ein helsta ógnin sem steðjar að börnum hér á landi.

Rúmlega níu prósent barna í 8. til 10. bekk hafa verið beitt ofbeldi. Hlutfallið er hærra meðal 16 til 18 ára, 16,4 prósent. Vanræksla, andlegt ofbeldi, rafrænt ofbeldi og einelti er ekki með í þessum tölum. Samkvæmt samantekt Stígamóta, fyrir Unicef, hafa flestir sem leita til samtakanna verið beittir kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur. 

Eru líklegri til að hafa reynt að svipta sig lífi

Samkvæmt samantekt Rannsóknar og greiningar er marktækur munur á afleiðingum ofbeldis meðal þeirra sem eru beittir því sem börn og hins vegar þeirra sem eru fullorðnir þegar brotið er á þeim. Fólk sem er beitt kynferðislegu ofbeldi í æsku, fremur en á fullorðinsaldri, er mun líklegra til að hafa leiðst út í neyslu, óhóflega notkun áfengis eða annarra athafna sem skerða lífsgæði þeirra. Þá eru það einnig líklegra til að hafa reynt að svipta sig lífi. Tæpur þriðjungur þeirra sem voru beitt ofbeldi sem barn sögðust hafa reynt að svipta sig lífi, hlutfallið er 15,4 prósent meðal þeirra sem voru beittir því á fullorðinsaldri.

Hefja átak gegn ofbeldi

Í dag hefst átak Unicef gegn ofbeldi á börnum á Íslandi. Yfirskrift átaksins er Stöðvum feluleikinn. Í tilkynningu frá Unicef segir að samtökin vilji stöðva feluleikinn í kringum ofbeldi gegn börnum. Hann hafi sér margar birtingarmyndir, meðal annars í því að fullorðnir bregðist of sjaldan við þegar þeir sjá, heyra eða grunar að barn sé beitt ofbeldi, hvort sem ofbeldið eigi sér sér stað inni á heimilum, í búðinni, í blokkinni eða í bæjarfélaginu. Í flestum tilfellum viti fólk einfaldlega ekki til hvaða aðgerða sé best að grípa. Feluleikurinn birtist einnig í því að börn þori oft ekki að segja frá ofbeldinu eða átti sig ekki á því að þau hafi orðið fyrir ofbeldi.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi