Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Rukkað inn við Geysi

28.10.2013 - 08:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Ferðafólk sem kemur að Geysi í Haukadal verður rukkað um aðgangseyri frá og með næsta sumri. Fulltrúi stjórnar landeigendafélags Geysis segir ekki ákveðið hversu hátt gjaldið verði, en viðamiklar endurbætur séu nauðsynlegar á svæðinu.

Stjórn Landeigendafélagins kynnti þessa ákvörðun í yfirlýsingu í gærkvöld - en í félaginu eru þeir einkaaðilar sem eiga um tvo þriðju svæðisins - ríkið á um þriðjung en stendur fyrir utan félagið. Garðar Eiríksson situr í stjórn landeigendafélagsins. Hann segir að nauðsynlegar endurbætur á svæðinu verði dýrar og til þess að skila landinu inn í framtíðina, þurfi fjármagn. Þá peninga sé ekki bara hægt að taka úr vasa skattgreiðenda.
Kostnaðurinn er metinn á um hálfan milljarð króna segir Garðar. Stefnt er að því að hefja gjaldtöku fyrrihluta næsta árs, og er það í undirbúningi. Ekkert hefur verið ákveðið með hve aðgangseyririnn verður en Garðar segir að stefnt sé að því að hafa gjaldið hóflegt. Allir verði rukkaðir, jafnt innlendir sem erlendir ferðamenn. „Það eru jafnþung sporin hvort sem að þú ert frá Þýskalandi eða Íslandi."