Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Rukka Ögmund ef hann kemur á morgun

30.03.2014 - 20:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Engin gjaldtaka var inn á Geysissvæðið eftir hádegi í dag þegar fyrrverandi innanríkisráðherra mætti þangað til að mótmæla innheimtunni. Hann segir það merki um að landeigendur viti að þeim sé ekki stætt á gjaldheimtunni.

Ferðamenn voru rukkaðir inn á Geysissvæðið fyrir hádegi í dag og aftur verður rukkað inn á svæðið á morgun. Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, hafði boðað komu sína á Geysi í Haukadal í dag og að hann myndi ekki greiða aðgangseyri. Þegar Ögmundur mætti á svæðið, ásamt hópi fólks, var enginn að innheimta við hliðið. Ögmundur segist hafa átt von á að svona færi.  „Þegar að fólk kemur til að standa á rétti sínum, standa á lagalegum rétti sínum um að koma og skoða náttúruperlurnar sem við eigum öll, og eigum rétt til að skoða hvenær sem er, og án þess að vera krafin gjalds, að þá hverfa rukkararnir af hólmi.“ 

Landeigendum sé ekki stætt á að innheimta gjald af ferðamönnum. „Þetta stríðir gegn lögunum, þetta er þvert á lögin og við vitum öll hvað það er kallað þegar fé er haft af fólki með ólögmætum hætti, það er kallaður þjófnaður, og hann á ekki að líðast,“ segir Ögmundur.

Tilviljun að ekki var rukkað eftir hádegi í dag

Garðar Eiríksson, talsmaður Landeigendafélags Geysis, segir að ekki hafi verið innheimt í dag vegna þátttöku í kynningarátakinu Leyndardómar Suðurlands. Tilviljun hafi ráðið því að þetta kom upp á sama degi og heimsókn þingmannsins. Á kynningarsíðu Leyndardóma Suðurlands stendur þó ekkert um að frítt yrði á Geysissvæðið í dag. Garðar sagði í samtali við fréttastofu að gjaldheimta hæfist aftur á morgun og ef þingmaðurinn kæmi þá yrði hann rukkaður.

[email protected]