Rúður brotnuðu í bílum tökuliðsins

Mynd með færslu
 Mynd:

Rúður brotnuðu í bílum tökuliðsins

16.09.2013 - 14:19
Rúður í nokkrum bílum sem tökulið stórmyndarinnar Interstellar er með brotnuðu í óveðrinu sem gekk yfir landið í gær og í nótt. Leikmyndir, sem notaðar eru við tökurnar, höfðu þó verið kyrfilega festar áður en veðurofsinn skall á og urðu því ekki fyrir barðinu á hvassviðrinu.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst urðu einhverjar tafir á tökunum vegna veðursins en þær fara að mestu leyti fram við Svínafellsjökul. Tökurnar eru þó á áætlun í dag, samkvæmt heimildum fréttastofu.

Meðal þeirra sem leika í myndinni og eru á Klaustri vegna hennar má nefna Matt Damon og Önnu Hatheway. Leikstjóri Interstellar er Christopher Nolan, þekktastur fyrir þríleik sinn um Leðurblökumanninn og Óskarsverðlaunamyndina Inception.