RSK skoðar 4 mál tengd fjárfestingarleiðinni

16.07.2017 - 18:51
Ríkisskattstjóri hefur fjögur mál, sem tengjast þeim sem fluttu fé til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans, til sérstakrar skoðunar. Búist er við að upplýsingar frá Lúxemborg og Sviss geri mögulegt að endurákvarða skatt á enn fleiri Íslendinga sem voru í keyptu skattaskjólsgögnunum.

Í Panamaskjölunum, sem ríkisstjórnin keypti fyrir tveimur árum á 37 milljónir króna, var að finna nöfn 21 Íslendings sem flutti fé til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans og naut þannig afsláttar af krónunum sem keyptar voru.

Þetta kom í ljós þegar upplýsingar, sem skattayfirvöld óskuðu eftir frá Seðlabankanum í apríl í fyrra, voru keyrðar saman við keyptu gögnin. Skattrannsóknarstjóri sagði við fréttastofu á fimmtudag að þar hefði mönnum ekki enn gefist tími til að fara að fullu yfir gögnin, en tveir starfsmenn ynnu nú að því.

Engar upplýsingar fást um þátttakendur

Ríkisskattstjóri fékk hins vegar líka þessar upplýsingar frá Seðlabankanum og í svari við fyrirspurn fréttastofu segir að þar séu nú fjögur mál til sérstakrar athugunar sem tengjast þeim sem nýttu sér fjárfestingaleiðina. Misjafnt er hvort þessir skattaðilar voru til skoðunar áður en gögnin bárust frá Seðlabankanum eða ekki. Málin hafa ekki enn leitt til niðurstöðu, endurákvörðunar skatta eða annarra aðgerða. 

Engar upplýsingar hafa fengist um hverjir tóku þátt í fjárfestingaleið Seðlabankans. Bankinn telur sig ekki hafa heimild til að greina frá því og hefur vísað í þagnarskylduákvæði laga um Seðlabankann.

Átta mál opnuð eftir upplýsingar frá Lúxemborg

Fréttastofa greindi frá því í gær að búið væri að endurákvarða tæplega hálfan milljarð króna í skatt á 16 manns sem fundust í keyptu skattaskjólsgögnunum. Alls voru um 400 nöfn í skjölunum en í svari Ríkisskattstjóra segir að erfitt sé að komast til botns í stórum hluta málanna þar sem fjárhagslegar upplýsingar skorti.

Hins vegar sé líklegt að upplýsingar frá Lúxemborg og Sviss, sem fengust vegna upplýsingaskiptasamninga við löndin, muni leiða til þess að einhver frekari mál verði opnuð.

Þá hafi átta aðilar sem ekki voru í Panama-skjölunum verið teknir til skoðunar á grundvelli bankaupplýsinga sem bárust frá nokkrum bönkum í Lúxemborg. Vonast sé til að það skili sér í endurákvörðun skatta á næsta ári, auk þess sem 5 til 6 mál til viðbótar verði líklega opnuð á grundvelli þeirra gagna.
 

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi