Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Rostungur flatmagar í fjöru Jökulsárlóns

16.08.2013 - 17:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Rostung rak upp á strendur Jökulsárlóns snemma í morgun. Þar hefur hann legið klukkustundum saman enda ófær um að koma sér aftur í sjóinn. Rostungurinn er karlkyns, stór og mikill og á að giska 400 kíló.

Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum Jökulsárlóns er þetta í fyrsta skipti sem rostungur strandar við lónið. „Hann vekur athygli gesta, og hefur orðið fyrir svolitlu áreiti af þeirra hálfu. Ætlunin er að koma upp litlu skilti og biðja gesti lónsins um að láta hann í friði,“ segir Brimdís Runólfsdóttir, starfsmaður Jökulsárlóns. Þegar starfsmenn lónsins mættu til vinnu um níuleytið í morgun mættu þeir rostungnum, svo ljóst er að hann hefur legið á ströndinni í að minnsta kosti 8 klukkustundir.

Mynd: Páll Sigurður Vignisson

Að sögn Brimdísar var rostungurinn nokkuð sprækur í morgun, reisti sig upp og lét vel að fólki. Síðan hefur hann misst móðinn og virðist nú nokkuð slappur. „Hann var miklu hressari í morgun, nú liggur hann bara kyrr en mér skilst að hann sé við ágæta heilsu,“ segir hún. 

Starfsfólk lónsins lét Náttúrufræðistofnun og lögregluna á Höfn vita ásamt því að tilkynna héraðslækni um rostunginn. Samkvæmt upplýsingum standa vonir til að rostungnum takist að fikra sig smám saman ofan í sjóinn á ný með aðstoð sjávarfalla, en að sögn sérfræðinga geta rostungar hafst við á ströndum í allt að sólarhring án þess að það hafi skaðleg áhrif á þá. Haft var samband við dýralækni sem mat ástand rostungsins eftir lýsingum. Taldi hann að allt benti til þess að rostungurinn væri við ágæta heilsu. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Höfn var tekin ákvörðun um að bíða og sjá hvernig rostungnum reiddi af. Nái rostungurinn ekki að koma sér aftur í hafið að sólarhring liðnum munu þeir grípa til ráðstafana. Að sögn lögreglumanna er talið líklegt að hér sé um að ræða sama rostung og rak á fjörur Reyðarfjarðar í júní. Lýsingin passar í meginatriðum, tennur jafnstórar og litur áþekkur.