Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Rósagarðurinn fær hurðirnar að Eden

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Rósagarðurinn fær hurðirnar að Eden

06.04.2017 - 21:22

Höfundar

Gróður-og kaffihúsið Rósagarðurinn hefur fengið hinar margrómuðu og listilega útskornu hurðir sem prýddu Eden í Hveragerði að láni frá bæjarfélaginu. Hveragerði fékk hurðirnar að gjöf eftir Eden brann í júlí fyrir sex árum og þær hafa verið í geymslu síðan þá.

Eigendur Rósagarðsins óskuðu eftir að fá hurðirnar að láni um miðjan síðasta mánuð.

Bæjarráð tók vel í þá hugmynd og nefndi sérstaklega að það hefði vakið athygli á sínum tíma að þrátt fyrir að fátt hefði staðið eftir þegar Eden brann þá hefðu tréhurðirnar ekki brunnið nema á þeirri hlið sem sneri inn. 

Hurðirnar eru eftir útskurðarmeistarann Erlend Magnússon og samkvæmt leigusamningi, sem kynntur var á fundi bæjarráðs í morgun, er eigendum skylt að láta hans getið þar sem hurðirnar verða til sýnis. 

Þeim á að vera komið fyrir á áberandi stað og þar sem þær séu minning um Eden skal sögu þess staðar gerð skil í stuttu máli og afdrifum þann 22. júlí 2011. Þá bera eigendur Rósagarðsins ábyrgð á því að hurðirnar skemmist ekki meira en orðið við það að vera til sýnis í gróðurhúsi.