Rósa Björk vill Kristján Þór á fund atvinnuveganefndar

18.11.2019 - 05:27
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra verður boðaður á fund atvinnuveganefndar til að ræða mál Samherja. Boðið er að undirlagi Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingkonu Vinstri grænna, sem telur brýnt að að ráðherrann ræði málið við þingmenn sem allra fyrst. Þetta kemur fram á facebook-síðu Rósu Bjarkar, þar sem hún segir Samherjamálið vera „af þeim skala og af því umfangi að íslensk stjórnmál geta ekki setið hjá aðgerðalaus."

Rósa Björk segir margar hliðar á málinu en grunnkjarninn í því sé samt nýtingin á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og útdeiling arðsins af henni. „Áhrif Samherjamálsins eigum við eftir að sjá að fullu leyti,“  skrifar Rósa, „þar undir er skattkerfið og eftirlitið með því, samþjöppun í sjávarútvegi, alþjóðasamvinna sem snýst ekki bara um heilindi í þróunarsamvinnu og eftirfylgni með henni, heldur líka um að standa við alþjóðlega samninga um aðgerðir gegn peningaþvætti og spillingu, náin tengsl stjórnmálanna og sjávarútvegsfyrirtækja.“

Löngu tímabærar stjórnarskrárbreytingar og orðspor Íslendinga á erlendri grundu eru líka í húfi, segir Rósa Björk. Því hafi hún óskað eftir því að Kristján Þór mæti sem fyrst á fund atvinnuveganefndar til að ræða áhrif málsins á stöðu Samherja og afleiðingar þess fyrir önnur íslensk fyrirtæki og sjávarútveginn sem slíkan. Þá vill hú vita hvort og þá til hvaða aðgerða sjávarútvegsráðuneytið hefur gripið vegna þessa. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi