Rómantískar myndir í rauðri Valentínusar-viðvörun

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay

Rómantískar myndir í rauðri Valentínusar-viðvörun

14.02.2020 - 15:22
Valentínusardagurinn er genginn í garð með stórglæsilegri rauðri veðurviðvörun. Ætla má að flestir haldi sig heima í rólegheitum við slíkar aðstæður og því höfum við tekið saman nokkrar rómantískar, og nokkrar ekki jafn rómantískar, kvikmyndir sem hægt er að gæða sér á.

Sama hvort þú kýst að halda upp á Valentínusardaginn eða ekki, þá er hann góð afsökun fyrir því að horfa á væmna rómantíska gamanmynd sem þig hefur alltaf langað til að sjá eða hefur horft á fimm sinnum nú þegar. 

Tímalaus klassík
Við getum öll viðurkennt það, sumar myndir eru svo fallegar að okkur langar bara að gráta og hlæja yfir þeim aftur og aftur. Kvikmyndir á borð við Slumdog Millionare og Grease gætu til dæmis verið kjörnar fyrir daginn í dag. Þá gæti verið gaman að rifja upp gamla takta nýja Óskarsverðlaunahafans Reneé Zellweger í Bridget Jones Diary. Toppurinn í tímalausu klassíkinni er samt auðvitað The Notebook, bullandi sleikur í mígandi rigningu? Fátt rómantískara. 

Mynd með færslu
 Mynd: eOnefilms - YouTube

Nýrri og alls ekki verri
Það er auðvitað líka slatti af nýrri myndum í boði líka. Við mælum með Marriage Story sem var nýlega tilnefnd til Óskarsverðlauna, en fjallar reyndar um skilnað. Ef þú vilt hins vegar klisjukennda ástarsögu þá eru myndirnar To All The Boys I Loved Before og To All The Boys 2: P.S. I love you fullkomnar í það.

Stelpur sem rokka og hlátursköst
Ef þig langar bara í gott hláturskast þá eru myndir á borð við Friends with Benefits og Bridesmaids tilvaldar í það. Ef þig vandar smá „girlpower“-pepp þá eru Booksmart og Someone Great stórkostlegar. Someone Great er líka ástæðan fyrir því að allir fóru að uppgötva lagið Truth Hurts með Lizzo og við getum verið sammála um það að okkur líður öllum betur eftir það.