Róleg nótt á Vestfjörðum

16.01.2020 - 06:56
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Jónsson - RÚV
Samhæfingarstjórnstöð almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra var starfrækt í alla nótt vegna snjóflóðanna sem féllu á Vestfirði í fyrrakvöld auk þess sem björgunarsveitarmenn og lögreglumenn voru til staðar. Nóttin var þó tíðindalaust með öllu.

Veðurstofan aflýsti hættustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum í gærkvöld. Þá var búist við því að hægt væri að aflétta óvissustigi í dag. Það hefur verið í gildi á norðanverðum Vestfjörðum síðustu daga. 

Síðasta veðurviðvörunin frá Veðurstofunni féll úr gildi klukkan tvö í nótt. Sú gilti á Vestfjörðum og var gefin út vegna hvassviðris. Nú er engin veðurviðvörun í gildi á landinu og engin slík hefur verið gefin út fyrir næstu daga. Rólegt veður verður í dag, miðað við síðustu daga, en á morgun hvessir hressilega austantil á landinu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi