Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Róleg nótt á gosstöðvum

22.04.2010 - 10:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Nóttin á gosstöðvunum í Eyjafjallajökli var mjög róleg, að sögn vettvangsstjórnar á Hvolsvelli. Rétt fyrir klukkan eitt jókst vatnsrennsli í Markarfljóti lítillega. Nokkur krapi barst með flaumnum. Þegar leið að morgni hafði ekki vaxið frekar í ánni.

Frá eldstöðvunum má enn finna markvissan takt umbrotanna. Vetur og sumar frusu saman undir Eyjafjöllum. Mikill snjór og hálka á veginum austan við Markarfljót.

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands búast við öskufalli í grennd við eldstöðina á Eyjafjallajökli,og vestur af henni, í dag.

Vísindamenn flugu yfir gossvæðið í gær og sáu að virkni hafði minnkað frá því í fyrradag. Þeim sýndist aðeins vera gos í einum gíg og ekkert hraunrennsli sást.

Í tilefni sumardagsins fyrsta verður í dag opið hús og veisla að Heimalandi milli klukkan ellefu og fimm. Rangárvallasýsludeild Rauða Krossins sér um að halda utan um samkomuna líkt og undanfarna daga í Heimalandi.