Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Rökstuddur grunur um hver lak minnisblaði

18.06.2014 - 13:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögreglan hefur rökstuddan grun um að starfsmaður innanríkisráðuneytisins hafi látið fjölmiðlum í té minnisblað um málefni hælisleitandans Tony Omos. Þetta kemur fram í dómi Hæstaréttar þar sem kröfu lögreglunnar um að fréttastjóri mbl.is verði látinn svara spurningum er hafnað.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur rannsakað hvort og þá hver lak minnisblaði úr ráðuneytinu sem tekið var saman í máli hælisleitandans Tony Omos. Lögreglan hefur tvívegis farið fram á það við dómstóla að fréttastjóri mbl.is verði skyldaður til að svara spurningum um málið. Þeirri kröfu var hafnað í bæði skiptin.

Rannsakaði tölvur og símanotkun
Margt hefur þó komið fram við rannsókn málsins og þá helst það að lögreglan er komin með vísbendingar um hver kunni að hafa lekið minnisblaðinu til Fréttablaðsins og mbl.is sem bæði birtu fréttir um málið. Í dómi Hæstaréttar segir að lögregla hafi „rökstuddan grun um að starfsmaður innanríkisráðuneytis hafi látið tveimur fjölmiðlum í té óformlegt minnisblað með persónuupplýsingum um þrjá nafngreinda einstaklinga“ og þannig brotið gegn hegningarlögum. „Eins og ráða má af greinargerð sóknaraðila hefur rannsókn málsins leitt ýmislegt í ljós sem gefur vísbendingu um hver kunni að hafa átt hlut að máli,“ segir í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem tengist leka á minnisblaði um hælisleitanda úr innanríkisráðuneytinu til fjölmiðla.

Lögregla aflaði upplýsinga um farsímanotkun þeirra starfsmanna ráðuneytisins sem komu að gerð minnisblaðsins auk upplýsinga um farsímanotkun tveggja annarra. Að auki aflaði lögregla sér upplýsinga um allar inn- og úthringingar úr borðsímum ráðuneytsins frá því klukkan fimm síðdegis 19. nóvember til hádegis 20. nóvember. Að auki rannsakaði lögregla fartölvu tveggja einstaklinga, að því er virðist.

Talaði fimm sinnum við Vísi og Morgunblaðið í síma
Niðurstaða lögreglu af þessum rannsóknum er að sami einstaklingurinn hafi átt fjögur stutt símtöl við einhvern á Vísi að kvöldi 19. nóvember og tveggja mínútna símtal við einhvern á Morgunblaðinu fjórtán mínútur í tíu næsta morgun, rúmri klukkustund áður en fréttin birtist á mbl.is. Einnig kemur fram að viðkomandi hafi vistað minnisblaðið á persónulegri fartölvu sinni og opnað það tvívegis að kvöldi 19. nóvember. Það hafi tvívegis gerst þegar skjalinu var lokað að viðkomandi væri boðið að vista breytingar á skjalinu. Viðkomandi hafi við yfirheyrslur, áður en lögregla komst að þessu, aðeins sagst hafa opnað skjalið en engar breytingar gert á því og kunni ekki skýringar á misræminu þegar spurt var út í það. Að auki hafi viðkomandi ekki getað útskýrt hvers vegna þessar skráningar á skjalinu í tölvu hans væru á svipuðum tíma og hann hefði talað við einstakling á Vísi. Lögregla fékk heimild til að skoða tölvupóst viðkomandi en þar kom ekkert marktækt fram sem tengdist málinu.

[email protected]