Róhingjar eru hættir að flýja til Bangladess

23.09.2017 - 18:34
epa06196511 Rohingya refugees walk in a muddy road as they enter Bangladesh border in Teknaf, Bangladesh, 10 September 2017. According to United Nations more than 270,000 Rohingya refugees have fled Myanmar from violence over the last few weeks, most
Róhingjar á flótta frá Mjanmar til Bangladess. Mynd: EPA - EPA-EFE
Straumur Róhingja-flóttamanna frá Mjanmar til nágrannaríkisins Bangladess virðist hafa stöðvaðst. Enginn hefur komið yfir landamærin síðastliðna þrjá daga. Á fimmta hundrað þúsund Róhingjar hafa flúið síðustu vikur og hafast við í flóttamannabúðum við þröngan kost.

Herinn í Mjanmar lagði til atlögu gegn minnihlutahópi íslamskra Róhingja í Rakhine héraði 25. ágúst síðastliðinn. Sveit herskárra Róhingja hafði þá ráðist á nokkrar lögreglustöðvar í héraðinu. Herinn gekk svo hatrammlega fram gegn fólkinu að það lagði á flótta til nágrannaríkisins Bangladess.

Á þeim tæplega mánuði sem liðinn er hafa hátt í 430 þúsund Róhingjar flúið yfir ána Naf sem skilur að löndin eða komið yfir Bengalflóa. Nú bregður hins vegar svo við að enginn hefur komið síðastliðna þrjá daga, að sögn landamæravarða í Bangladess. Sárafáir hafa komið landleiðina. Hvorki herinn í Bangladess eða starfsmenn hjálparstofnana Sameinuðu þjóðanna hafa skýringu á því hvers vegna flóttamannastraumurinn hefur stöðvast.

Aung San Su Kyi, leiðtogi Mjanmar, greindi frá því í vikunni að hreinsanir hersins í Rakine héraði væru að baki, eins og hún komst að orði. Herinn hefur til þessa neitað því að hafa beitt Rohingja harðræði. Margir greina þeir þó frá því að hafa orðið vitni að fjöldamorðum og nauðgunum. Sameinuðu þjóðirnar segja að lýsingar fólksins bendi til þess að framferði mjanmarska hersins hafi verið ígildi þjóðernishreinsana.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi