Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Róðurinn á bráðamóttökunni að þyngjast

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV
„Tilfinningin á bráðamóttökunni er að veikindi og áhrif vegna CoViD-19 faraldursins er að aukast mjög hratt,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum, í stöðuuppfærslu á Facebook í dag. „Við sjáum fleiri með öndunarfæraeinkenni og fleiri með þekkt smit eru að koma til mats á þörf á innlögn,“ skrifar Jón Magnús.

Þá segir Jón Magnús að á sama tíma sé starfsfólk deildarinnar farið að smitast, og að aðrir þurfi að fara í sóttkví. „Þannig þyngist róðurinn hjá okkur óneitanlega,“ segir Jón Magnús.

Í tilkynningu sem barst frá Almannavörnum síðdegis segir að mikið álag sé bæði á Læknavaktinni og Heilsuveru. Almannavarnir hvetja fólk til þess að kynna sér upplýsingar á eftirfarandi vefsíðum:

Heimasíða Landlæknis

Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra

Covid.is