Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Robert Plant á Secret Solstice í sumar

epa06956232 (FILE) - British singer and former Led Zeppelin group member Robert Plant performs during his concert with his band 'The Sensational Space Shifters' during The Nights of the Botanical in Madrid, Spain, 14 July 2016 (reissued 18
Robert Plant. Mynd: EPA-EFE - EPA

Robert Plant á Secret Solstice í sumar

31.01.2019 - 13:23

Höfundar

Breski rokksöngvarinn Robert Plant, sem var forsprakki hinnar goðsagnakenndu hljómsveitar Led Zeppelin, verður meðal þeirra helstu sem koma fram á sjöttu Secret Solstice hátíðinni sem verður haldin í Laugardalnum í Reykjavík í sumar.

Þessi tíðindi bárust með fréttatilkynningu frá forsvarsmönnum hátíðarinnar í dag. Komu Roberts Plants ber þar hæst. Í fyrra voru fimmtíu ár frá því að Led Zeppelin var stofnuð í London og núna 12. janúar voru fimmtíu ár frá því að fyrsta hljómplata sveitarinnar kom út. 

Led Zeppelin er ein stærsta og merkasta rokksveit sögunnar og sendi frá sér átta stórar stúdíóplötur á ferlinum. Hljómsveitin leystist upp þegar trommari hennar, John Bonham, lést af völdum mikillar áfengisneyslu 1980. Robert Plant hefur hafnað hverju gylliboðinu á fætur öðru um tónleika og tónleikaferðir með Led Zeppelin en hefur þess í stað einbeitt sér að sólóferli og  nýrri músík. Hann hefur sent frá sér ellefu sólóplötur frá 1982 og sú nýjasta, sem kom út 2017, heitir Carry Fire. Hana gerði Plant með hljómsveitinni sem kemur með honum til Íslands í sumar, The Sensational Space Shifters. Plant, sem varð sjötugur í fyrra, er í góðu formi og hefur gert talsvert í því að staðna ekki, heldur heldur hann sífellt áfram að gera nýja hluti og spennandi.

Annað tónlistarfólk sem er tilgreint í fréttatilkynningunni og verður á hátíðinni í Laugardalnum í sumar eru: Foreign Beggars, MK, Mr G, Kerri Chandler, Boy Pablo, XXX Rottweiler hundar, Högni Egilsson, Ari Árelíus, Auður, Svala Björgvins, Captain Syrup, ClubDub, Exos, Ingi Bauer, Bensol, Jóhann Stone, KrBear, Mike The Jacket, Vibes, OktavDJ, Pink Street Boys, Séra Bjössi, Sprite Zero Klan, Ragga Holm, Rokky, Smash TV, ALXJ, Chris Hirose, Clint Stewart, Dilivius Lenni og Monello, DJ Nitin, Ricoshëi og Vom Feisten.

Von er á að nöfn fleira listafólks bætist við þennan lista á næstu vikum. Secret Solstice verður eins og áður segir á Jónsmessunni í Laugardalnum í Reykjavík, 21.-23. júní.