Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rjúpnavertíðin valdið vonbrigðum

16.11.2018 - 13:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Rjúpnaveiðin hefur almennt valdið vonbrigðum það sem af er vertíðinni og tíðarfar sett strik í reikninginn. Veiðimenn sjá talsvert af rjúpu en hafa almennt lítið veitt. Þetta er þó misjafnt eftir landshlutum.

Talsvert sást af rjúpu áður en veiðitímabilið hófst og menn voru almennt bjartsýnir á vertíðina. Veiðidögum var fjölgað og það mátti veiða í 15 daga í stað 12 áður.

Vertíðin almennt valdið vonbrigðum

Nú er fjórða veiðihelgin af fimm að renna upp og til þessa hefur vertíðin almennt valdið vonbrigðum. „Já, hún hefur gert það á ákveðinn hátt. Miðað við talningar allavega,“ segir Ómar Örn Jónsson, formaður Skotfélags Akureyrar. Hann segir mun minna af fugli á ferðinni en fyrr í haust. „Fyrstu helgina þá fóru menn frá fjöru og alveg til efsta fjalls og lítið að sjá. Ég held að tíðarfarið hafi eitthvað með þetta að segja.“

Fyrsti almennilegi dagurinn fyrir austan 

Undir þetta taka rjúpnaveiðimenn víðar á landinu. Veiðin hefur almennt gengið illa á Austurlandi og veiðimaður á Egilsstöðum segir að þar sé í dag í fyrsta sinn almennilegt veður síðan veiðar hófust. Þær þrjár helgar, sem heimilt hefur verið að veiða, hafi meir og minna verið ónýtar. Rjúpnaveiðar í uppsveitum Suðurlands hafa gengið betur og varaformaður Skotveiðifélags Íslands segist hafa átt ágæta rjúpnadaga á Ströndum.

Vertíðin leiðinleg þó menn nái í jólamatinn

En Ómar segir að þó flestir nái kannski að veiða í jólamatinn hafi vertíðin verið leiðinleg hingað til. „Ég held að flestir nái að veiða í jólasteikina, ég efast ekki um það. En það er ekkert búið að vera neitt fjör í þessu, miðað við það sem menn áttu von á. Menn áttu von á að sjá miklu meira af fugli.“