Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rjúpnaveiðimaður varð fyrir slysaskoti

01.11.2019 - 21:12
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Lögreglan á Suðurlandi fékk tilkynningu um að rjúpnaveiðimaður á sjötugsaldri hafi orðið fyrir slysaskoti í Eldhrauni, skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur, laust eftir klukkan þrjú í dag. Skotið hafnaði í öðrum fæti mannsins. Maðurinn var fluttur á Landspítalann með þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Suðurlandi var um að ræða slysaskot frá manninum sjálfum. Hann hafi hlotið slæma áverka á fæti. 

Í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar segir að veiðifélagar mannsins hafi kallað eftir aðstoð og veitt hinum slasaða, sem var með fullri meðvitund, fyrstu hjálp. Maðurinn var svo fluttur til aðhlynningar á heilsugæsluna á Kirkjubæjarklaustri. Í kjölfarið var kallað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti manninn á Landspítalann.

Katrín Ásmundsdóttir
dagskrárgerðarmaður