Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Rjúpnaveiðar hefjast á föstudaginn

19.10.2015 - 18:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Byrja má að veiða rjúpur á föstudaginn kemur. Veiða má fjórar helgar í ár. Náttúrufræðistofnun telur að veiða megi 54 þúsund rjúpur úr rjúpnastofninum.

Tólf veiðidagar í boði
Samkvæmt tilkynningu Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins verða veiðidagar rjúpu tólf talsins og skiptast þeir á fjórar helgar á tímabilinu 23. október til 15. nóvember. Sölubann á rjúpum er í gildi og fylgir Umhverfisstofnun því eftir. Meginstefna stjórnvalda er að nýting rjúpnastofnsins skuli vera sjálfbær og að rjúpnaveiðimenn stundi hóflega veiði til eigin nota.

Rjúpnastofninn í niðursveiflu
Heildarveiði á rjúpu hefur minnkað töluvert undanfarin ár, segir í tilkynningu ráðuneytisins. Veiðimenn eru hvattir til að veiða ekki fleiri rjúpur en hver og einn þarf auk þess sem þeir eru beðnir að gæta þess að særa ekki fugl umfram veiði. Áfram er bannað að veiða rjúpu á Suðvesturlandi. Náttúrufræðistofnun Íslands metur veiðiþol rjúpnastofnsins 54 þúsund rjúpur. Í greinargerð Náttúrufræðistofnunar um veiðiþol kemur fram að rjúpnastofninn er í niðursveiflu víðast hvar annars staðar en á Norðausturlandi. Rjúpnafjöldinn er talinn vel undir meðallagi síðustu 50 ára.

Telur rjúpnaveiðar fara í bága við lög
Náttúrufræðistofnun segir í greinargerðinni að hún hafi ítrekað bent á á undanförnum árum að rjúpnaveiðar séu ekki sjálfbærar. Stofnunin telur að ef núverandi fyrirkomulag um veiðar gildi áfram verði ekki tekið á þeim vanda sem við blasi það er viðvarandi háum afföllum rjúpunnar. Hlutverk Náttúrufræðistofnunar sé að meta hvort viðkomandi stofn þoli veiðar samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Náttúrufræðistofnun bendir á að í 7. grein laganna sé kveðið á um að ákvörðun um að aflétta friðun skuli meðal annars byggjast á að viðkoma stofns sé nægileg til að vega upp á móti afföllum vegna veiða. Rjúpnaveiðar voru bannaðar árin 2003 og 2004. Í niðurlagi greinargerðar Náttúrufræðistofnunar segir orðrétt: „Þrátt fyrir að bein veiðiafföll rjúpna séu lág (um 10%) og hafi lækkað mikið frá því að rjúpnaveiðar hófust að nýju árið 2005, þá eru sterkar vísbendingar um það mikil viðbótarafföll vegna veiðanna að þær teljast ósjálfbærar og standist því ekki 7. gr. laga nr. 64/1994.“