Rjóður kærasti sem skilur eftir sig tómarúm

Mynd: RÚV / RÚV

Rjóður kærasti sem skilur eftir sig tómarúm

20.11.2019 - 20:45

Höfundar

Gagnrýnendur Kiljunnar söknuðu þess að sjá Kristínu Eiríksdóttur kafa eins djúpt og hún hefur gert í fyrri bókum sínum, í nýjustu ljóðabók sinni Kærastinn er rjóður.

Ljóð Kristínar Eiríksdóttur eru í afar óvenjulegum en eftirtektarverðum búningi þetta árið. Kápa bókarinnar skartar ungum manni sem starir í myndavélina. Hann er rjóðum í vöngum, með snjóhvítar tennur og sakleysislegt bros. Stílbragð og hönnun minnir um margt á forsíður unglingatímarita frá tíunda áratugnum. „Þetta er alveg hræðileg bókakápa en svo þegar maður fer að lesa ljóðin áttar maður sig á því að þetta er auðvitað hinn rjóði kærasti,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir um útlit bókarinnar og hlær. „Já, hún fer frá því að vera fráhrindandi í að verða aðlaðandi þessi kápa,“ tekur Sverrir Norland undir. Kolbrún og Sverrir fjölluðu um ljóðabókina Kærastinn er rjóður í Kiljunni í kvöld.

Kærastinn er rjóður er fimmta ljóðabók höfundar og í henni kynnist lesandi hinum ýmsu kærustum sem komið hafa og farið úr lífi ljóðmælanda og skilið eftir sig tómarúm. „Það sem sat í mér eftir lestur þessarar bókar var viss innilokunarkennd. Ljóðmælandi er rosalega fastur í fyrri reynslu, í sjálfri sér og sambandi við umheiminn. Það er engin náttúra, ekkert æðra heldur bara þessir fyrrverandi kærastar sem eru ótrúlega fjarlægir líka. Þú ferð í gegnum alla bókina og situr uppi með einmanaleika,“ segir Sverrir.

Kolbrún segir að í bókinni sé ekki að finna neina upphafningu á ástinni og að hún hafi orðið efins um raunverulega ást í þeim samböndum sem lýst er. „Því niðurstaðan í flestum þessum tilvikum er: Hvað sá ég eiginlega við þig? Þú varst ekkert sérstakur, þú varst eins og allir aðrir,“ segir hún.

Sverrir veltir því þá fyrir sér hvort umfjöllunarefni bókarinnar sé í raun fjarvera ástarinnar frekar en ástin sjálf. „Hún fer í gegnum nokkur sambönd og ekkert situr eftir nema tengslaleysi og einmanaleiki. Ég veit ekki hvað það segir okkur um samtímann,“ segir hann og glottir. Hann viðurkennir að hann hefði kosið að fá meira út úr bókinni og að komast nær þeim persónum sem kynntar eru til leiks. „Ég hefði viljað að hún hleypti á aðeins meira skeið og kafaði dýpra. Hún hefur sýnt það í fyrri bókum að hún getur það sannarlega en hún gerir það ekki hér,“ segir hann. „Ljóðin eru líka misgóð. Þarna eru nokkrar sláandi flottar myndir en svo koma nokkrir kærastar sem líða hjá eins og skuggar. Maður vill helst þrífa í þá og segja: Staldraðu við og segðu okkur hver þú ert.“

Kolbrún er sammála því að ljóðin hafi verið missterk og þó mörg hafi verið góð hefði ljóðmælandi mátt kafa dýpra. „Ég lít eiginlega á þetta sem millibók í hennar ferli. Kannski á vísan hátt skemmtun sem er, eins og kápan, óvenjuleg.“

Fjallað var um Kærastinn er rjóður eftir Kristínu Eiríksdóttur í Kiljunni og má sjá og hlýða á alla umfjöllunina í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Æsispennandi ungmennabók

Bókmenntir

Engin fyndni án tregans og tragedíunnar

Bókmenntir

Alvöruskáldskapur þrunginn harmi og húmor