Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ritstjórum ber ekki saman

22.02.2013 - 09:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Ritstjórum 365 ber ekki saman um hvort rétt sé að Jón Ásgeir Jóhannesson, þróunarstjóri 365 og eiginmaður aðaleiganda fyrirtækisins, hafi beitt óeðlilegum þrýstingi til að hafa áhrif á fréttaumfjöllun um sig.

Magnús Halldórsson, viðskiptaritstjóri Stöðvar 2 og Vísis segir í grein á Vísi að Jón Ásgeir hafi ítrekað reynt að setja þrýsting á blaðamenn fyrirtækisins með kvörtunum til stjórnar.

Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, sagði í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun að sér finnist grein Magnúsar góð og að hann fari ekki með neitt bull. Hann kannast alveg við það að Jón Ásgeir hafi verið mjög ósáttur við fréttaflutning af sjálfum sér í Fréttablaðinu og að hann hafi vissulega reynt að hafa áhrif á það hvernig efnið var sett fram. „Ég kannast við það að Jón Ásgeir hafi verið mjög ósáttur við umfjöllun um sig í Fréttablaðinu og gert við hana alvarlega athugasemdir og sakað okkur um að brjóta eigin siðareglur um að öll sjónarmið fái að koma fram í málum,“ sagði Ólafur í samtali við fréttastofu RÚV. „Hann hefur viljað koma að sjónarmiðum strax, áður en fréttir fara í loftið. Það getur verið eðlilegt og sjálfsagt í sumum tilvikum en er það ekki í öllum. Og svo er það jafn rétt hjá Magnúsi Halldórssyni að við höfum ekki látið þessar athugasemdir hafa nein áhrif á það hvernig við höldum á þessum málum.“

Freyr Einarsson, ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis, segist aldrei hafa fengið kvörtun vegna fréttaflutnings frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, þróunarstjóra 365 og eiginmanns aðaleiganda fyrirtækisins. Þetta sagði Freyr í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Aðspurður að því hvort eitthvað sé hæft í því sem Magnús haldi fram segir Freyr að honum finnist þetta stór fullyrðing á veikum forsendum.

Freyr segir að Magnús sé að vísa í athugasemd sem Jón Ásgeir sendi til stjórnar fyrirtækisins vegna fréttar Fréttablaðsins þar sem hafi verið viðtal við slitastjórn Glitnis um hugsanlega lögsókn. „Mér skilst að það hafi komið athugasemd frá Jóni Ásgeiri sem hafi borist til stjórnar um það að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að svara ummælum sem þar féllu,“ sagði Freyr. Hann segir að enginn sem starfi á ritstjórninni líti á fjölmiðla fyrirtækisins sem eign Jóns Ásgeirs. Hann sé umfjöllunarefni eins og allir aðrir þegnar landsins þrátt fyrir að konan hans eigi fyrirtækið. Hann lúti sömu lögmálum og aðrir. Freyr segir fleiri dæmi um að Jón Ásgeir hafi óskað eftir því að fá að tjá sig um frétt sem sögð er um hann. Hann eins og allir aðrir hafi þann rétt.

Hann segir að Jón Ásgeir hafi aldrei hringt í sig eða reynt að beita sig þrýstingi með nokkrum hætti. Freyr segir að athugasemdir Jóns Ásgeirs hafi aldrei orðið til að þess að frétt sé breytt eða hún dregin til baka, enda hafi hann aldrei farið fram á neitt slíkt.