Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Rithöfundar ósáttir við Storytel

Mynd með færslu
 Mynd: breakingpic - pexels

Rithöfundar ósáttir við Storytel

21.02.2018 - 14:10

Höfundar

Óánægja ríkir meðal rithöfunda með að Storytel sé farið að bjóða íslenskar hljóðbækur í áskriftarstreymi á vef sínum. Rithöfundarsamband Íslands telur að slíkt sé óheimilt án þess að gerður sé sérstakur samningur við rithöfunda um áskriftarstreymi. Forsvarsmenn Storytel telja sig hins vegar í fullum rétti eftir að hafa samið við bókaútgefendur um að bjóða hljóðbókarútgáfur af bókum þeirra á vefnum.

Storytel hóf í gær starfsemi á íslenskum markaði en hefur áður rutt sér til rúms á Norðurlöndum og víðar í Evrópu. Fyrirtækið býður upp á hljóðbækur sem viðskiptavinir geta hlustað á með áskrift að vefnum. Nokkur hundruð íslenskar bækur eru í boði í upphafi auk þúsunda bóka á ensku. 

Ágreiningur um áskriftarstreymi

Eftir því sem fréttastofa hefur fregnað eru margir rithöfundar ósáttir við að bækur þeirra séu komnar í áskriftarstreymi án þess að samið hafi verið við þá. 

Rithöfundasamband Íslands hefur falið Sigríði Rut Júlíusdóttur lögmanni að gæta hagsmuna félagsmanna sinna. Þar lítur fólk svo á að sérstakt leyfi þurfi til að bjóða upp á bækur í áskriftarstreymi sem fáist aðeins með sérstökum samningi við rithöfunda, segir Sigríður Rut. Þannig sé mikill munur á því að selja hljóðbækur í eintökum annars vegar og því að dreifa þeim í áskriftarstreymi. 

Sömdu við útgefendur

Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Storytel, segist hafa heyrt af óánægju en segist ekki hafa heyrt í neinum sem er óánægður. Stefán segir að starfsemi Storytel á Íslandi hafi verið lengi í undirbúningi og að hann hafi verið í sambandi við Rithöfundarsamband Íslands vegna þess. „Rithöfunarsambandið hefur verið upplýst um þetta í heilt.“

„Við gerum samninga við útgefendur og þeir að minnsta kosti telja sig hafa heimild til að semja við okkur um þennan rétt,“ segir Stefán. Þeir samningar byggja á útgáfurétti sem útgefendur gera við höfunda um bækur þeirra „Útgefandi framselur okkur hljóðbókarétt af þessu.“ Hann segir að sú leið hafi verið farin að semja við útgefendur en að til greina komi að gera einnig samning við Rithöfundasamband Íslands.

Stefán segist hafa upplýst Storytel í Svíþjóð um umræðuna hérlendis og segir að þar séu menn pollrólegir. Hann segir að allir samningar séu búnir að fara í gegnum nálarauga lögfræðinga og þar sé tekið á streymi, því telji Storytel sig vera í fullkomnum rétti.

Hlusta á tæplega tvær bækur í mánuði að meðaltali

Íslendingar tóku mjög vel við sér þegar þjónustan var kynnt í gær segir Stefán. Mánaðargjaldið að Storytel á Íslandi er 2.690 krónur og skiptist á milli fyrirtækisins og útgefenda. Höfundar fá svo sinn hlut af greiðslunni til útgefenda. Samkvæmt samningi Rithöfundasambandsins við Félag íslenskra bókaútgefenda fá rithöfundar 23 prósent af heildsöluverði hljóðbóka. Stefán segir að reynslan sé sú að hver notandi Storytel hlusti að meðaltali á tæplega tvær bækur á mánuði. Greiðsla til hvers og eins höfundar ræðst af því hversu margar hljóðbækur hlustar á í gegnum þjónustuna.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Streymiþjónusta fyrir hljóðbækur opnar í dag

Menningarefni

Storytel kaupir elsta bókaforlag Svíþjóðar