Á sumardaginn fyrsta var tilkynnt að breski rithöfundurinn Ian McEwan hlyti fyrstur manna alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness. McEwan er rithöfundur sem markaði vatnaskil í breskum bókmenntum og í lengri tíð talinn í fremstu röð skáldsagnahöfunda heims. Í umsögn valnefndarinnar segir að yfir sögum hans hvíli nútíminn eins og reykur úr verksmiðju, „og ekki bara reykur heldur loftslag, sérstakt loftslag, andrúmsloft. Stíllinn er úthugsaður, nákvæmur og skýr, en einkennist um leið af órökrænum skynjunum en slíkar lýsingar eru aldrei úr lausu lofti gripnar heldur greyptar í sálarástand persónanna. Nákvæmni setninganna vegur þungt, skýrleiki þeirra og hljómur, í stuttu máli sagt, andrúmsloftið í textanum. Öllum má vera ljóst að vandi mannlegrar tilveru knýr að dyrum þessa höfundar og hann opnar sig ætíð með óvæntu og nýstárlegu móti.“
McEwan er væntanlegur til landsins í september til að veita verðlaununum viðtöku. Það eru liðnir tæpir tveir áratugir síðan rithöfundurinn var síðast staddur hér á landi, þá til að taka þátt í breskri bókmenntahátíð sem fram fór í Háskólabíói. McEwan hafði þá nýverið sent frá sér skáldsöguna Atonement, sem kom kom síðar út í íslenskri þýðingu árið 2003 undir titlinum Friðþæging. Hann var sagður á hátindi ferilsins af lesendum og gagnrýnendum. Í viðtali sem Eiríkur Guðmundsson tók við hann fyrir Víðsjá á Rás 1 kom fram að McEwan var ekki um sel; af hátindi er jú aðeins ein leið, nema það sé annar hátindur í sjónmáli.
Hann var vissulega ánægður með viðtökur nýjustu skáldsögunnar en um leið smeykur um að nýir lesendur yrðu fyrir vonbrigðum með næstu bók sem hann skrifaði. „Maður getur jú ekki skrifað sömu bókina aftur,“ sagði McEwan.
Aðeins ein leið er fær í þeirri stöðu, sagði hann. Hún sé sú að draga sig í hlé frá lesendum og almannarýminu og byrja upp á nýtt. „Að byrja á nýrri skáldsögu er ævinlega afskaplega erfitt og hæggengt ferli. Ég er vonlaus í að byrja á nýjum bókum. Maður verður að líta svo á að hver ný skáldsaga er sú fyrsta og gleyma því sem öðrum finnst og aðrir vilja.“