Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Risavaxinn kúrbítur í Skötufirði

02.07.2013 - 17:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Risavaxinn kúrbítur gerði Lilju Dóru Harðardóttur og fjölskyldu heldur hissa þegar þau voru við uppskeru í sumarhúsi sínu á Borg í Skötufirði við Ísafjarðardjúp á dögunum. Fjölskyldan ræktar þar grænmeti og ávexti í gróðurhúsi og uppskar tæplega fimm kílóa kúrbít.

Þetta kemur fram á vef Bæjarins Bestu. Lilja Dóra segir í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að hana hafi ekki órað fyrir að myndin sem hún deildi á Facebook af dóttur sinni, Birnu, með grænmetið myndi vekja svo mikil viðbrögð. Margir hafi talið að um töfra myndvinnsluforritsins Photoshop væri að ræða. Nú bíður kúrbíturinn í ísskáp fjölskyldunnar en að sögn Lilju Dóru tímir enginn í fjölskyldunni að skera hann. 

Gróðurhúsið er um 100 fermetra plasthús sem hitað er upp með blásara og heitavatnsrörum sem lagðar eru undir moldina. „Það er ótrúlegt hvað hægt er að rækta norður á hjara með smá fyrirhyggju.“ segir Lilja. Auk þess að rækta kúrbít ræktar fjölskyldan gúrkur, tómata, epli, vínber, baunir, jarðarber, papriku, salat og kryddjurtir en aðeins til einkanota. Hún segir að fjölskyldan prufi nýjar tegundir á hverju ári sér til skemmtunar.