Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Risanöfn í rokkheiminum á Eistnaflugi

Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson / Eistnaflug 2016

Risanöfn í rokkheiminum á Eistnaflugi

07.07.2017 - 12:17

Höfundar

Rokktónlistarhátíðin Eistnaflug stendur nú yfir og er þetta í tólfta skipti sem hún er haldin. Yfirskrift hátíðarinnar „Ekki vera fáviti“ vísar til þess að gestum sé uppálagt að hegða sér vel, annars verði hátíðin blásin af. Hátíðin hefur stækkað ár frá ári, og laðar nú að sér heimsfræg nöfn í þungarokkinu. Cavalera bræður úr brasilísku þungarokkssveitinni Sepultura stíga á stokk í kvöld.

„Þetta rúllar allt bara rosalega vel. Það sem er toppurinn við þetta er að veðurspáin er að ganga upp, þannig að við erum að fá bara æðislegt veður. Þannig að það breytir öllu,“ segir Stefán Magnússon skipuleggjandi og forsprakki hátíðarinnar. Hátíðin hófst miðvikudaginn 5. júlí og stendur yfir fram á aðfaranótt sunnudags.

Fjölbreyttari dagskrá síðari ár

Fjölbreytni dagskrárinnar hefur aukist í áranna rás, og hefur viðburðurinn þróast úr því að vera harðkjarna þungarokkshátíð yfir í almennari rokkhátíð. Þó er kvöldið í kvöld einskonar veisla fyrir þungarokksheiminn á Íslandi, en Cavalera bræður úr brasilísku þungarokkssveitinni Sepultura stíga á stokk í kvöld, föstudagskvöldið 7. júlí.

Hljómsveitin var stofnuð árið 1984 af bræðrunum Max og Igor Cavalera. Síðan hafa orðið miklar breytingar innan sveitarinnar og í dag er enginn af upprunalegum stofnmeðlimum í bandinu. Þó er Sepultura enn þann dag í dag eitt stærsta þungarokksband heims, og arfleifð þess ótvíræður áhrifavaldur á tónlistarstefnuna í heild sinni.

Langstærsta kvöld Eistnaflugs hingað til

„Þetta er langstærsta kvöld sem Eistnaflug hefur boðið upp á. Það er alveg á hreinu, og eins mikið og ég hlakka til að sjá það gerast þá hlakka ég líka rosalega til að þetta verði búið. Maður bara vonar að þetta rúlli ógeðslega flott,“ segir Stefán og hlær. „Það eru allir spenntir að sjá hvernig þeir standa sig í kvöld.“

Stefán segir viðburðinn risastóran fyrir alla unnendur rokktónlistar. „Þeir [Cavalera bræður] eru að fara að spila Roots plötuna sem er ein þekktasta þungarokksplata sem gefin hefur verið út,  þannig að þetta er fáránlega flott. Og þeir hafa verið að spila núna á festivölum úti um allan heim, og hafa verið að spila þetta efni, þessa Roots plötu, og það er bara mjög flott og skemmtilegt.“ Roots var gefin út árið 1996 og var síðasta platan sem Max Cavalera, annar bræðranna, söng inn á með Sepultura.

Vilja virkja íbúa á svæðinu til að mæta

Stefán segir hátíðina vera blöndu af fjölskylduhátíð og sértækari tónlistarhátíð. „Þetta er bæði fólk að koma hérna með krakkana og svo þeir sem hafa gaman af aðeins öðruvísi tónlist.“ Fjöldi gesta er á bilinu 2000-2500, og eru þá með talnir þeir sem koma fram á hátíðinni, sem og annað starfslið. Þáttaka einkafyrirtækja innan sveitarfélagsins hefur einnig aukist seinustu ár eftir því sem hátíðin hefur stækkað. Síldarvinnslan á Neskauppstað gerðist styrktaraðili hátíðarinnar í ár og í framhaldinu munu skipuleggjendur bjóða helgarpassa á sérstöku verði. Eru þannig sérstaklega verið að reyna að höfða til íbúa á austurlandi, sem gætu gripið tækifærið og sótt viðburðinn. „Maður er svolítið svona að leitast eftir því að fólkið hérna sérstaklega fyrir austan, sem að kannski væri ekki að koma, vilji þá kíkja aðeins á okkur.“

Í myndskeiðinu að neðan má sjá innslag rokkstöðvarinnar Banger TV um hátíðina í fyrra

„Ekki vera fáviti“

Slagorð hátíðarinnar „Ekki vera fáviti“ hefur vakið nokkra athygli, en hátíðin hefur vakið athygli fyrir að fara sérlega vel fram. Stefán hefur sjálfur lýst því yfir að hátíðinni verði lokið fyrir fullt of allt, ef gróf ofbeldismál koma upp. „Það hjálpar til við alltsaman, þá eru menn að hegða sér enn frekar, það svínvirkar.“ Aðspurður hvaða skilning fólk leggi í merkingu hugtaksins „Að vera ekki fáviti?“ segir Stefán, „Þá er bara ekki verið með vitleysu, það er ekki verið að stela í búðinni eða vera með eitthvað bull á svæðinu, menn bara hegða sér, og hjálpast að við það.“

Stefán Magnússon skipuleggjandi Eistnaflugs var í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 föstudaginn 7. júlí 2017

Heimildarmynd: Bannað að vera fáviti

Hér fyrir neðan má nálgast heimildarmyndina Bannað að vera fáviti frá árinu 2015, sem frumsýnd var í sjónvarpi á RÚV, þann 6. júli sama ár. Í myndinni er farið yfir sögu Eistnaflugs, en hátíðin fagnaði 10 ára afmæli árið 2014. Leikstjóri er Hallur Örn Árnason. Framleitt af Sigga Jenssyni og Hark Kvikmyndagerð.

Uppfært: Í upphaflegu fréttinni stóð að Sepultura væri að koma fram, en rétt er að Cavalera bræður, sem hafa sagt skilið við bandið, eru að koma fram.

Frá tónleikum á Eistnaflugi í fyrra. - Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson / Eistnaflug 2016

Tengdar fréttir

Popptónlist

Eistnaflugsforinginn, Slade og Van Halen

Austurland

Eistnaflug fékk Eyrarrósina

Popptónlist

Tökum á (Eistna)flug!