Risaflugfélagið Emirates sýnir Íslandi áhuga

10.07.2019 - 14:48
Mynd með færslu
 Mynd: YouTube
Emirates, ríkisflugfélag Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, hefur undanfarið kannað möguleika á að tengja Ísland inn í gríðarstórt leiðakerfi sitt.

Þetta kemur fram í Viðskiptamogganum í dag og samkvæmt heimildarmönnum hafa fulltrúar félagsins komið hingað til lands til að kanna aðstæður en málið mun vera á frumstigi. Þeir hafa fundað með íslenskum fyrirtækjum en ekki Isavia sem rekur Keflavíkurflugvöll.

Emirates er eitt stærsta flugfélag heims og það stærsta í Mið-Austurlöndum en það var stofnað árið 1985 og flýgur til 161 áfangastaða í 80 löndum í sex heimsálfum.

Það er fjórða stærsta flugfélagið miðað við fjölda farþega og í fyrra námu heildartekjur þess 13,3 milljörðum dala og hagnaður 62 milljónum dollara.

Flugfloti Emirates telur 255 vélar, bæði frá Airbus og Boeing. Hjá því starfa rúmlega 60 þúsund manns.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi