Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Ríkisstyrkir falli niður

29.11.2010 - 13:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Flugfélaginu Erni hefur verið tilkynnt að ríkisstyrkur vegna flugs félagsins til Sauðárkróks falli niður um áramót. Gangi það eftir segir framkvæmdastjóri félagsins að flugi þangað verði sjálfhætt. Jafnframt myndi félagið hætta áætlunarflugi til Bíldudals og Gjögurs.

Flugfélagið Ernir flýgur áætlunarflug til fimm staða - Bíldudals, Gjögurs, Sauðárkróks, Hafnar í Hornafirði og Vestmannaeyja. Allar hafa þessar flugleiðir verið ríkisstyrktar nema Vestmannaeyjar. Vegagerðin hefur nú tilkynnt Flugfélaginu Erni að frá og með áramótum hætti ríkið stuðningi við flug félagsins til Sauðárkróks, enda hafi ríkisstuðningur á þeirri leið ekki síst verið til þess að tryggja betur samgöngur við Siglufjörð. Með opnun Héðinsfjarðarganga séu forsendur breyttar.


Hörður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Flugfélagsins Ernis, segir að verði ríkisstyrk vegna Sauðárkróksflugsins hætt um áramót hætti félagið flugi þangað. Allt útlit sé til að svo verði.


Leggist Sauðárkróksflugið af segir Hörður að forsendubrestur yrði í rekstrinum og óhjákvæmilegt yrði að hætta einnig flugi á áfangastaði félagsins á Vestfjörðum. Þá yrði það Bíldudalur, Gjögur og Sauðárkrókur sem myndu detta út.


Flugfélagið Ernir á nú í viðræðum við samgönguráðuneytið um málið. Hörður segir að allir hafi skilning á því að þessar samgöngur verði að vera, sérstaklega á þeim tíma þegar verið sé að draga úr annarri þjónustu á landsbyggðinni, t.d. í heilbrigðisþjónustu og á sjúkrahúsum. Hann bætir við að ef það eigi einnig að draga úr samgöngum skapist neyðarástand.