Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ríkisstjórnin greiði jólauppbót hælisleitenda

18.12.2017 - 21:25
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Dómsmálaráðherra ætlar að leggja það til á ríkisstjórnarfundi á morgun að jólauppbót hælisleitenda fyrir þessi jól verði greidd af því fé sem ríkisstjórnin hefur til umráða. Hún segir mikilvægt að koma uppbótinni í fastar skorður.

Fullorðnir hælisleitendur fá átta þúsund krónur í fæðispeninga á viku og börn fimm þúsund. Tíðkast hefur að tvöfalda upphæðina í jólavikunni, en í fréttum í gær var greint frá því að með reglugerðarbreytingu hafi sú uppbót verið afnumin. Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær og Reykjanesbær hafa fengið tilkynningu frá Útlendingastofnun um að greiða ekki þessa uppbót. Formaður Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk, sagði í fréttum í gær að það sé óskiljanlegt og ómannúðlegt að taka jólauppbót af hælisleitendum. 

„Það kom réttilega fram í fréttum ykkar um helgina að undanfarin ár hefur þessi jólauppbót verið veitt,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. „Það er hins vegar ekki þannig að sú venja sé löng. Og alls ekki formföst. Það sem hefur gerst með nýjum lögum um útlendinga, þá er gert ráð fyrir að það séu settar almennar reglur um öll útgjöld. Og þau eru niðurnjörvuð. Og það hefur hvorki verið til heimild til þessara útgreiðslna né fjárheimild í rauninni.“

Sigríður segist hins vegar telja eðlilegt að hælisleitendur njóti jólauppbótar eins og aðrir.

„Ég hef lagt til, í samráði við forsætisráðherra, og mun leggja það til á ríkisstjórnarfundi á morgun, að ríkisstjórnin ráðstafi af því fé sem hún hefur til umráða fjárhæð sem kemur til móts við hælisleitendur þessa vikuna.“

Þetta eru 8.000 krónur fyrir fullorðna og 5.000 krónur fyrir börn, verður sú upphæð þá nálægt því?

„Já við reiknum með því. En það hefur verið allur gangur á þessari framkvæmd undanfarin ár. Í fyrra til að mynda fengu börn ekki greidda þessa fjárhæð. Þannig að þetta er eitthvað sem þarf að skoða til framtíðar þannig að þetta sé í föstum skorðum og þannig að það sé til fjárheimild fyrir þessu.“

En þið eruð að leysa þetta sérstaklega núna fyrir þessi jól?

„Já, við ætlum að gera það vonandi á ríkisstjórnarfundi á morgun,“ segir Sigríður.