Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ríkisstjórnin fylgir ekki eigin stefnu

29.10.2014 - 13:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Ríkisstjórnin hefur enn ekki gripið til margra þeirra aðgerða sem boðaðar voru í nýrri Evrópustefnu hennar fyrir rúmlega hálfu ári til að efla hagsmunagæslu Íslands innan EES. Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir mikla hagsmuni í húfi en að áhuga stjórnvalda virðist skorta.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir að stjórnvöld virðist ekki hafa áhuga á að setja nauðsynlegan kraft og vinnu til að fylgja eftir sjö mánaða Evrópustefnu þeirra, þrátt fyrir að miklir hagsmunir séu í húfi fyrir íslenskt atvinnulíf.

Um miðjan mars var tilkynnt um nýja Evrópustefnu stjórnvalda en markmið hennar var að efla hagsmunagæslu Íslands og greina löggjöf á frumstigum löggjafarvinnunnar á vettvangi EES. Til að svo gæti orðið voru tiltekin allmörg verkefni sem átti að ráðast í, samráðs- og samstarfshópar sem átti að setja á fót, aukin þátttaka í ráðherrafundum á vegum ESB og aukin tengsl embættismanna við starfsbræður í Noregi.

Þá átti að vinna skýrslu um mat á hagsmunum Íslands af EES samningnum sem skila átti í haust. Á sama tíma átti að hraða innleiðingu EES gerða og fækka þeim málum þar sem Íslandi er stefnt fyrir EFTA dómstólinn vegna þess að EES reglur hafa ekki verið innleiddar. Ólafur segir mikla hagsmuni í húfi. Íslensk fyrirtæki eigi mjög mikið undir því að það séu sömu reglur á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Ólafur bendir á að á þeim sjö mánuðum, sem liðnir eru frá því stefnan var mörkuð hafi lítið gerst.

“Ráðuneytin eða íslenskar stjórnsýslustofnanir hafa ekkert meira svigrúm til þess að senda fólk á fundi til Brussel, þar sem verið er að undirbúa reglurnar og kvarta undan því opinberlega. Það hefur ekkert frést af því að það sé verið að efla sendiráðið í Brussel heldur til að takast á við þetta verkefni.„

Enn hefur hvorugur samstarfs- eða samráðshópur stjórnvalda og atvinnulífsins, sem lofað er í stefnunni, verið stofnaður. 

“Manni virðist að þrátt fyrir falleg orð þá vanti áhugann á því að viðhalda þessu regluverki og setja þann kraft í þessa vinnu sem þarf.„