Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ríkisstjórnin fallin og kosninga krafist

15.09.2017 - 06:40
Mynd með færslu
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar kom saman á ríkisráðsfundi á Bessastöðum á mánudaginn. Mynd: Heiðar Örn Sigurfinnsson - RÚV
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er sprungin eftir átta mánuði við völd. Stjórn Bjartrar framtíðar ákvað í gærkvöld að slíta samstarfinu vegna þess sem kallað er alvarlegur trúnaðarbrestur á milli flokksins og forsætisráðherra. Þriðji stjórnarflokkurinn, Viðreisn, vill kosningar sem fyrst.

Trúnaðarbresturinn sem Björt framtíð vísar til snýr að upplýsingum um mál Hjalta Sigurjóns Haukssonar, dæmds barnaníðings, og því að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, hafi skrifað undir meðmælabréf til stuðnings þess að æra Hjalta fengist uppreist.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sagði frá því í fréttum í gærkvöld að hún hefði greint Bjarna frá bréfi föður hans í júlí. Bjarni sagði Óttari Proppé og Benedikt Jóhannessyni, formönnum hinna stjórnarflokkanna, ekki frá tilvist bréfsins fyrr en á mánudaginn var og þeir heyrðu svo fyrst í fréttum í gær að Bjarni hefði vitað af málinu síðan í júlí.

„Umræður á fundinum leiddu til þessarar niðurstöðu, að þetta væri trúnaðarbrestur af þeirri stærðargráðu að ekki yrði lengra komist í þessu ríkisstjórnarsamstarfi,“ sagði Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, að loknum stjórnarfundinum í gærkvöld.

Guðlaug Kristjánsdóttir, oddviti í Norðvesturkjördæmi. - Mynd: Anton Brink / Ruv.is

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, tók undir með Guðlaugu og sagði að í samstarfi þyrfti að ríkja traust á milli manna. Það að Bjarni og Sigríður hafi haldið málinu leyndu fram á síðustu stundu hefði sýnt fram á trúnaðarbrest innan ríkisstjórnarinnar. „Þannig að ég var sammála þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki á vetur setjandi héðan af.“

Mynd: RÚV / RÚV

Eftir að tíðindin bárust kom þingflokkur Viðreisnar saman til fundar á skrifstofum þingmanna í Austurstræti – eða að minnsta kosti sá hluti hans sem var í Reykjavík – ásamt starfsmönnum og öðrum trúnaðarmönnum. Fundurinn stóð í þrjá tíma og að loknum fundinum sendi þingflokkurinn frá sér yfirlýsingu.

Í yfirlýsingunni sagði að fréttir gærdagsins af málsmeðferð um uppreist æru hefðu vakið hörð viðbrögð innan raða Viðreisnar og að í ljósi stöðunnar sem upp væri komin teldi þingflokkurinn réttast að boðað yrði til kosninga hið fyrsta.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV

Benedikt Jóhannesson, sem fylgdist með fundinum frá Akureyri, sagði í samtali við fréttastofu í nótt að ákvörðunin væri Bjartrar framtíðar, hann hefði ekki vitað af henni fyrir fram og að sá möguleiki að slíta stjórnarsamstarfinu hefði ekki verið ræddur formlega innan Viðreisnar. Hann sagðist fyrst hafa heyrt það í fréttum í gær að Bjarni Benediktsson hafi vitað af bréfi föður síns síðan í júlí.

Engu að síður segist Benedikt ekki telja að trúnaðarbrestur hafi orðið á milli hans og Bjarna. „Ég hef rætt við forsætisráðherra, hann hefur útskýrt málið fyrir mér og ég upplifi þetta ekki sem trúnaðarbrest,“ segir hann. Hann segist enn fremur ekki sjá fyrir sér annað stjórnarmynstur í ljósi þess hversu erfiðlega hafi gengið að mynda ríkisstjórn í haust.

Mynd: RÚV / RÚV

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sagði eftir fundinn að mikil ólga hefði verið innan baklands flokksins í gær og fréttir gærdagsins af vitneskju tveggja ráðherra Sjálfstæðisflokksins um málin hafi vakið gríðarlega sterk viðbrögð innan raða Viðreisnar. Nú væri það mat þingflokksins að þingheimur þyrfti að endurnýja umboð sitt.

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að ríkisstjórnin hefði fallið vegna „viðbjóðslegs spillingarmáls“.

„Það kemur auðvitað á óvart að hún skuli falla með þessum hætti. Út af spillingu og ormagryfju sem er að opnast. Hins vegar kemur það mér ekki á óvart að ríkisstjórnin sé að falla. Hún er búin að vera í andaslitrunum frá í byrjun,“ sagði Logi.

Mynd: RÚV / RÚV

Á dagskrá Alþingis í dag er framhald umræðu um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Óvíst er hvort af þeirri umræðu verður. Benedikt sagði í gærkvöld að mögulega hefðu menn um annað að ræða. „Við skulum sjá til hvað verður úr því en það verður auðvitað að undirbúa fjárlög. Það verður að vera einhver stjórn á landinu.“

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að stjórnarslitin séu „stórmerkileg tíðindi“. Óljóst sé hvað nákvæmlega taki nú við. Ef allt fari eins og vanalega þegar ríkisstjórnir falli þá muni forsætisráðherra fara á fund forseta Íslands á næstu dögum og biðjast lausnar fyrir ríkisstjórn sína. 

„Og þá mun forsetinn biðja Bjarna að sitja áfram í svokallaðri starfsstjórn, það er hefðin og venjan, að forsætisráðherra verði við því og situr þá í starfsstjórn þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð hvort sem hún er mynduð eftir að boðað er til kosninga eða ekki.“

Þá sé stóra spurningin hvort ráðherrar Bjartrar framtíðar vilji sitja í þeirri starfsstjórn.

Mynd: RÚV / RÚV